140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[12:23]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er þingleg meðferð að leggja til að málið verði tekið af dagskrá. Það hefur margsinnis verið gert á Alþingi, síðast fyrir tveim árum. Það eru ótal fordæmi fyrir því. Þetta mál hefur fengið fullkomlega þinglega meðferð í mörg ár. Alveg frá árinu 2008, 2009, haustið 2010 og til dagsins í dag hefur þetta mál fengið fullkomlega þinglega meðferð og vandaða umfjöllun í nefndum þingsins eins og ég fór yfir áðan. Það er mitt mat að það sé engin ástæða til þess og ástæðulaust með öllu að halda áfram umfjöllun um mál sem Alþingi er þegar búið að setja í tiltekinn farveg og er byggt á góðum gögnum, vandaðri umfjöllun, vönduðu nefndarstarfi og vandaðri vinnu rannsóknarnefndar Alþingis. Þetta mál var fullrætt haustið 2010. Þá tók Alþingi ákvörðun.