140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[12:28]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég svaraði spurningu hv. þm. Bjarna Benediktssonar í ræðu minni áðan. Ég svaraði henni með þeim hætti að Alþingi gæti ekki leyft sér að koma sér undan því uppgjöri sem það sjálft tók ákvörðun um að fara í haustið 2008. Þeir þingmenn sem sátu í sal Alþingis tóku ákvörðun um að gera þessi mál upp af fullri einlægni. Því trúi ég. Það er auðvelt að trúa því þegar menn lesa þær ræður sem þá voru haldnar, t.d. um þingsályktunartillöguna um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að þingmenn hafi í einlægni ætlað að gera þessi mál upp.

Ef við tökum þá ákvörðun í dag að hætta við það, vísa allri ábyrgð frá okkur, krefjast uppgjörs af öðrum en okkur, jafngildir það því að setja það pólitíska uppgjör sem við ætluðum að fara í (Gripið fram í: Í réttarsal.) gagnvart Alþingi, gagnvart þeim störfum sem hér hafa farið fram, gagnvart ráðherraábyrgðinni og embættismönnum í tætarann, já. (Gripið fram í.)