140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að málið sem slíkt hefur fengið margvíslega umfjöllun um langan tíma. Þær spurningar sem við stöndum hins vegar frammi fyrir í dag hafa ekki fengið þá skoðun að við getum verið komin að niðurstöðu.

Tökum dæmi. Menn vísa fram og til baka í fræðimenn, látna og lifandi. Væri ekki nokkurs virði áður en þingmenn taka afstöðu til þess hvort það eigi að henda þessu máli út úr þinginu eða ekki að þingnefnd ætti samtal við einhverja fræðimenn á þessu sviði? Við þekkjum tilvitnanir í látna fræðimenn sem nefndar hafa verið í dag. Ég hygg reyndar að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hafi misskilið tilvitnun í landsdómsgrein Lárusar H. Bjarnasonar frá 1914 en það er atriði sem til dæmis væri hægt að fara yfir í nefnd. Eins væri hægt að taka viðteknar kenningar í dönskum rétti eins og sjá má í riti Pouls Andersens, Dansk Statsforfatningsret frá 1954, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að þingið geti hvenær sem er kallað aftur mál sem höfðað hefur verið gegn ráðherra. Það væri hægt að fara yfir svona í nefnd. Það er erfitt að gera það í þingsal, (Forseti hringir.) en það væri mjög hentugt að gera það í nefnd.