140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

rammaáætlun í virkjunarmálum.

[13:48]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu verulega mikilvæga verkefni sem væntanlega er eitt þeirra stærstu sem fyrir þinginu liggja á yfirstandandi þingi. Það er rétt sem kemur fram í fyrirspurn þingmannsins, stjórnskipulega heyrir rammaáætlunin undir iðnaðarráðherra en gert er ráð fyrir að þingsályktunin verði lögð fram í samstarfi við umhverfisráðherra.

Ég geri ráð fyrir því að í meginatriðum verði staðið við þann tímaramma sem lagt er upp með. Þarna er um að ræða gríðarlega umfangsmikið viðfangsefni eins og þingmaðurinn drepur á í fyrirspurn sinni og það eru tugir, ef ekki hundruð, athugasemda sem bæði einstaklingar og félagasamtök hafa lagt fram. Þær athugasemdir eru af ýmsu tagi, þær varða flokkun einstakra kosta en líka forsendur sem verkefnisstjórnin leggur til grundvallar.

Það gildir um þetta verkefni eins og öll önnur verkefni að þegar kemur að framlagningu máls fyrir þingið fylgir þeirri framlagningu pólitísk ábyrgð. Yfirferðin verður því að vera ítarleg af hálfu beggja þeirra ráðherra sem ábyrgðina axla. Sú vinna stendur yfir og ég vænti þess að þingið fái þetta verkefni til umfjöllunar fyrr en síðar.