140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

styrkir frá ESB.

[13:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Á dagskrá þingsins á eftir eru annars vegar þingsályktunartillaga og hins vegar lagafrumvarp um að veita Evrópusambandinu einhvers konar skattfrelsi, öllum sem þar starfa og öllu sem Evrópusambandið flytur inn, undanþiggja það frá tollalögum, stimpilgjöldum o.fl. Um helgina var opnuð hér Evrópustofa þar sem Evrópusambandið hyggst á næstu árum eyða hundruðum milljóna í að kynna sjálft sig fyrir okkur Íslendingum. Opnunin var mikið auglýst í öllum fjölmiðlum og má fullyrða að einhverjum milljónum eða tugum milljóna hafi verið varið í einungis þá auglýsingaherferð.

Hæstv. innanríkisráðherra ritaði tvær greinar seinni part árs 2010 um þetta málefni undir fyrirsögnunum „Virkisturn í norðri?“ og „Þjóðin ræður“. Í þeirri síðari sagði hæstv. innanríkisráðherra, með leyfi frú forseta:

„Nú þegar ESB opnar skrifstofur hér á landi til að kynna sinn málstað og reka fyrir honum áróður eins og boðað hefur verið og byrjar fyrir alvöru að bjóða í boðsferðir og upplýsingaferðir, þá ríður á að við séum meðvituð um að í bland er aðstoðin hugsuð sem „glerperlur og eldvatn“ til að glæða áhuga okkar á að fá að sitja til borðs í Brussel.“

Nú virðist sem glerperlurnar og eldvatnið streymi þegar til landsins og mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvað honum finnist um þá stöðu sem upp er komin varðandi þessi mál og hvort hann telji ekki þörf á að bregðast við þessu, í ljósi þess að glerperlurnar og eldvatnið er byrjað að streyma til landsins og hann hefur lýst skoðun sinni á því. Er ekki hætta á því að þetta stóra mál skekki lýðræðislega umræðu í landinu?