140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var kannski einmitt það sem ég meinti og ég bið hv. þingmann afsökunar á því að hafa gert orð mín að hans. En það var þetta sem ég meinti því að við erum einmitt á því að Evrópusambandið eigi lítið erindi hingað. Nóg um það.

Það sem slær mig, eins og hv. þingmaður fór yfir, er að hér er verið að koma með Evrópusambandselítu hingað til lands sem þarf hvergi að borga skatta eða standa skil á neinu er hún kemur inn í ný ríki. Hér er raunverulega verið að gera embættismenn, venjulega verktaka og starfsmenn Evrópusambandsins, sem áætlað er að komi hingað til að uppfylla einhverjar kröfur í stofnunum Íslands, að diplómatískum aðilum sem þeir eru alls ekki. Þetta fólk starfar á engan hátt í utanríkisþjónustunni þó að það ferðist á milli landa í krafti þess að það sé að aðstoða hér við aðlögunina að Evrópusambandinu. Það er einkennilegt að þetta skuli gert með þeim hætti að Evrópusambandið geti dælt fjármagni inn í þessar stofnanir og þess sér hvergi stað að greitt sé af þessu fjármagni til ríkissjóðs í formi skatta, vörugjalda eða annars, mjög einkennilegt, því að svo er líka áætlað að starfsfólk þetta komi hingað með tækjabúnað.

Annað sem slær mig er að þingsályktunartillagan byggist svo mjög á því að það séu aðallega erlendir aðilar sem hingað koma til að eyða þessum fjármunum. Það verður nánast ekkert til af störfum fyrir Íslendinga, þessum peningum fylgja engin störf því að þeir eru fluttir til landsins ásamt starfsfólki. Hvað finnst þingmanninum um það?

Efst á bls. 3 stendur einmitt að framkvæmdastjórnin ætli sjálf að annast eftirlit með þessum styrkjum en í öðrum ríkjum sem hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu (Forseti hringir.) eru byggðar upp stofnanir til að hafa framkvæmdina með höndum.