140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef sömu skoðun á þjóðinni og hv. þingmaður, ég treysti henni líka, treysti henni til að taka afstöðu þegar hún hefur allar upplýsingar fyrir framan sig og það sem meira er, ég treysti því að meiri hluti þjóðarinnar hafi rétt fyrir sér þegar hann lýsir því með endurteknum hætti að hann vilji ljúka þessari vegferð.

Hv. þingmaður talar um hið hrikalega ástand sem nú ríki á Íslandi í efnahagsmálum. Þá verð ég að rifja upp fyrir hv. þingmanni að við erum í 4% hagvexti. Við munum hverju Framsóknarflokkurinn spáði um hagvöxtinn fyrir ári, hann taldi að um þetta leyti yrði Ísland í rjúkandi rúst. Það er ekki þannig.

Fyrir skömmu var þjóðin spurð að því hvernig henni liði í könnun sem var gerð meðal margra þjóða. Það kom í ljós að 49% af þjóðinni leið vel, 9% af þjóðinni taldi að henni liði illa. Gjörbreyting frá því sem áður var.

Staðreyndin er einfaldlega sú, frú forseti, þó að hv. þingmaður vilji ekki fallast á það, að hér eru hlutirnir farnir að ganga, svo ég vísi í orð aðalhagfræðings Seðlabankans. Hér er í gangi það sem hann kallaði kröftug uppsveifla.