140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

nefnd um samspil lífeyrissjóða og almannatrygginga.

[11:04]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir fyrirspurnina en hann er sjálfur þátttakandi í þessari nefnd. Hann gerði ágætlega grein fyrir því að nefndin, sem hefur verið að vinna að endurskoðun á almannatryggingakerfinu, setti sér það vinnulag að vinna fyrst með ellilífeyrisþega og ætlaði nú eftir áramótin að byrja með örorkulífeyrisþega.

Erindi kom frá Öryrkjabandalaginu rétt fyrir jólin þar sem þeir óskuðu eftir að fá aukið vægi í nefndinni þar sem þeir fengju þá tvo fulltrúa í stað eins áður — raunar vildu þeir fá enn fleiri en við ákváðum að bjóða þeim að hafa tvö sæti í nefndinni. Það kom því mjög á óvart þegar nefndin kom saman á nýju ári og ætlaði að fara að byrja vinnu með örorkulífeyrinn að þeir skyldu koma með bókun um að þeir ætluðu ekki að taka þátt í starfi nefndarinnar að svo stöddu.

Þessi nefnd hefur ekki fengið það hlutverk að úthluta peningum og hefur aldrei verið. Menn töluðu með byrjunarvinnu út frá núlllausn og ég skildi hugtakið núlllausn þannig að maður einmitt tæki peningalega þáttinn út og reyndi að stilla upp kerfi sem væri réttlátt, virkaði, einfaldara, þar sem dregið yrði úr víxlverkun og öðru slíku, það var verkefni hópsins. Enda tók hann það mjög alvarlega í byrjun, að mér er sagt, og eftir því sem ég hef fylgst með, að reyna að einfalda hugmyndirnar um það hvernig tekjutengingar eigi að vera í þessu kerfi, hvaða lífeyri er um að ræða o.s.frv.

Glímt hefur verið við þetta í fjöldamörg ár og það sem þessi hópur átti að gera var einmitt að vinna úr öllum þessum skýrslum sem hafa verið unnar af fyrrverandi ríkisstjórnum og fyrrverandi vinnuhópum og reyna að leiða þetta allt saman til að komast einu skrefi lengra. Það er leið að segja að við ætlum að leggja allt undir og það er klárt að við erum að skoða húsnæðiskerfið, við erum að skoða lánasjóðskerfið, við erum að skoða greiðsluþátttökuna í heilbrigðiskerfinu o.s.frv. en ég held að það sé óráðlegt að setja þetta allt undir einn hatt og halda að við getum náð utan um þetta allt í einu. (Forseti hringir.) En það er ákveðin grundvallarforsenda sem þarf að vinna þarna og engin áform eru um annað en að þessi hópur haldi áfram. Ég skal koma í seinna svari mínu inn á það að verið er að tala um að styrkja hópinn enn frekar.