140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[11:28]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem einkennt hefur norrænu vinstri stjórnina er vangeta hennar til að horfast í augu við fordæmalausan vanda og traust hennar á að vandinn annaðhvort leysist af sjálfu sér eða með hefðbundnum aðgerðum. Skuldavanda heimilanna á samkvæmt ríkisstjórninni að leysa með aðgerðum sem hneppa samviskusömu fjölskyldurnar í skuldafangelsi en tryggja að kröfuhafar hámarki endurheimtur sínar. Afleiðingin er gífurleg eignatilfærsla sem birtist í vaxandi misskiptingu milli þeirra sem eiga og hinna sem skulda. Loforðið um norræna velferðarsamfélagið er orðið að kröfuhafasamfélaginu.

Virðulegi forseti. Óánægja almennings vex stöðugt með hverju nýju útspili ríkisstjórnarinnar. Nýjasta dæmið er skýrsla Hagfræðistofnunar, stofnunar sem notar rangar upplýsingar um afskriftasvigrúmið og var ekki falið að reikna út hvað það kostar að gera ekki neitt. Það er orðið afar brýnt að leiðrétta öll lán. Að öðrum kosti festumst við í skuldakreppu eins og þeirri sem Japanar hafa þurft að glíma við í 12 ár, kreppu sem stafar af löskuðum efnahagsreikningum heimila og fyrirtækja sem verður til þess að allir vilja greiða niður lán og enginn vill fjárfesta.

Frú forseti. Sátt mun ekki nást í samfélaginu nema við leiðréttum fasteignalán þeirra sem hafa tekið á sig 350 milljarða frá hruni vegna verðtryggingarinnar. Við eigum að horfast í augu við vandann og skoða þær leiðir sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til og loks að framkvæma eitthvað í þessu máli.