140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

myndlistarlög.

467. mál
[11:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til myndlistarlaga. Það er nú lagt fram öðru sinni, það var upphaflega lagt fram á 135. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu.

Frumvarpið er nú lagt fram eftir nokkra endurskoðun, m.a. á grundvelli framkominna umsagna um efni þess sem bárust eftir að það hafði verið lagt fram á þingi. Bætt hefur verið við ákvæðum um listaverk í opinberum byggingum með það í huga að fella endurskoðuð ákvæði um listskreytingar opinberra bygginga og Listskreytingasjóð ríkisins, nr. 46/1998, inn í þetta frumvarp.

Með frumvarpinu er lagt til að myndlistarsviðinu verði lýst í heildarlögum með líkum hætti og áður hefur verið gert um ýmis önnur listasvið. Því er ætlað að koma í stað laga um Listasafn Íslands, nr. 58/1988, en við setningu safnalaga árið 2001, sem ég vísaði m.a. til í fyrri ræðu um annað frumvarp, breyttist hlutverk Listasafns Íslands á þann veg að það var gert að höfuðsafni á sviði myndlistar. Í ákvæði til bráðabirgða í safnalögum er kveðið á um að endurskoða skuli lög er þá giltu um söfn er störfuðu samkvæmt sérstökum lögum. Nauðsynlegt er að aðlaga gildandi lög um Listasafn Íslands annars vegar að safnalögum og hins vegar að annarri rammalöggjöf um önnur listasvið.

Gert er ráð fyrir að frumvarpið taki til allrar myndlistarstarfsemi sem ríkið stendur fyrir eða styrkir, þar með talið starfsemi Listskreytingasjóðs, nema starfsemi Listasafns Einars Jónssonar sem er rekið á grundvelli erfðaskrár listamannsins.

Í I. kafla frumvarpsins er fjallað um Listasafn Íslands. Helstu breytingar eru þær að lagt er til að safnráð í núverandi mynd verði lagt niður og heiti forstöðumanns verði breytt í safnstjóra. Heimilt er að framlengja fimm ára skipunartíma safnstjóra um annað fimm ára tímabil. Þetta er nokkur breyting því að þarna er gert ráð fyrir — og mun sú tillaga líka birtast í frumvarpi til sviðslistarlaga sem von er á inn á þetta þing — að ákveðinn hámarkstími verði sérstaklega settur hverjum og einum forstöðumanni menningarstofnunar, sem er í raun og veru lykilstofnun á sínu sviði.

Sú breyting er lögð til hvað varðar innkaupanefnd að ráðherra skipi einn fulltrúa án tilnefningar, sem jafnframt verði formaður, Samband íslenskra myndlistarmanna tilnefni einn fulltrúa en að auki sitji safnstjóri í nefndinni.

Í II. kafla eru helstu nýmæli skipan myndlistarráðs og stofnun Myndlistarsjóðs. Með starfi myndlistarráðs og stofnun Myndlistarsjóðs er stefnt að því að bæta hag þessarar listgreinar til jafns við aðrar og því er litið til fyrirmynda í öðrum greinum, til að mynda leiklistarráðs, tónlistarráðs eða stjórnar Bókmenntasjóðs, og verði myndlistarráð líkt og þessar stjórnir eða ráð ráðherra til ráðgjafar og annist úthlutun úr Myndlistarsjóði. Enn fremur er ráðinu ætlað að stuðla að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum og listsköpun þeirra og vinna að því að efla alþjóðlegt samstarf íslenskra myndlistarmanna og stofnana. Ætlunin er að myndlistarráð veiti ráðuneytinu faglega aðstoð og stuðning en hlutverk Myndlistarsjóðs verður samkvæmt frumvarpinu að veita fjárhagslegan stuðning til verkefna á sviði myndlistar til að efla hana og koma henni á framfæri hér á landi og erlendis.

Ég vek sérstaka athygli á því að í umsögn fjármálaráðuneytis er sagt að þetta lagafrumvarp eigi ekki að hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð heldur muni þau ráðast af framlögum á fjárlögum hverju sinni. Hingað til hafa verið veittir ákveðnir styrkir til myndlistar, til að mynda á safnliðum ráðuneytis, sem ég geri ráð fyrir að renni í Myndlistarsjóð. Ég tel hins vegar að hafa þurfi í huga, og vísa því til hv. allsherjar- og menntamálanefndar, að skoða stöðu þessa sjóðs við fjárlagagerð næsta árs þannig að undir hann verði byggt smám saman svo að þetta verði raunverulegur verkefnasjóður á sviði myndlistar.

Í III. kafla eru felld inn ákvæði laga um listskreytingar opinberra bygginga og Listskreytingasjóð ríkisins, nr. 46/1998, þar sem þau snúa einnig að því að efla myndlist í landinu. Annars vegar er um að ræða að verja 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni eða umhverfi hennar og hins vegar að Listskreytingasjóður úthluti styrkjum til listaverka í eldri opinberum byggingum sem voru fullbyggðar fyrir 1. janúar 1999. Horfið er frá því að nota orðið listskreyting og í staðinn notað orðið listaverk. Stjórn Listskreytingasjóðs veitir styrki til eldri bygginga og veitir einnig ráðgjöf um listaverk í þeim mannvirkjum sem lögin taka til. Bætt er við ákvæði þar sem lýst er eignarhaldi ríkisins á þeim listaverkum sem njóta framlags samkvæmt frumvarpinu, sem kalla má eðlilegt.

Telja má að samþykkt frumvarpsins muni skapa heildstæðari og skýrari lagagrundvöll fyrir myndlistarsviðið og styrkja starfsemi myndlistarmanna með stofnun Myndlistarsjóðs með þeim fyrirvara að ég lít svo á að það þurfi að ræða sérstaklega við fjárlagagerð. Umsýsla sjóðanna tveggja mun alfarið vera utan ráðuneytisins og ákvarðanir um styrkveitingar endanlegar á stjórnsýslusviði. Þær munu því ekki sæta kæru til ráðherra en ráðuneytinu ætti um leið að gefast betra tóm til að sinna eftirlitshlutverki sínu.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.