140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

skýrsla Norðmanna um EES-samstarfið.

[16:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þá málefnalegu umræðu sem átt hefur sér stað. Mér þótti athyglisvert að heyra ýmsa hv. þingmenn segja: Það eru engar nýjar fréttir og þarf ekki norska skýrslu til þess að segja okkur að fullveldisframsal felist í EES-samningnum. Það vissu menn árið 1994. Menn eru enn þá að berja höfðinu við stein ef þeir neita bláköldum staðreyndum, ef þeir horfa ekki á það að síðan þá er landslagið gjörbreytt.

Á sínum tíma var talið af hálfu okkar bestu fræðimanna að hægt væri að verja EES-samninginn gagnvart stjórnarskránni eins og hún er núna vegna þess að þá höfðum við tækifæri til að móta reglur framkvæmdastjórnarinnar. Síðan hefur það gerst að innan Evrópusambandsins að til þess að vega upp lýðræðishallann innan þess hefur Evrópuþingið fengið mikil völd, meðal annars völd til að gerbreyta þeim reglum og tilskipunum sem frá framkvæmdastjórninni koma. Þess vegna hefur lýðræðishallinn aukist verulega gagnvart okkur og Norðmönnum. Það skiptir máli.

Miðað við það að þingið hefur ekki eytt meiri tíma í að ræða nokkurt mál ef frá er talið Icesave og fjárlög, nema stjórnarskrána, finnst mér að menn umgangist hana af nokkru kæruleysi þegar svo virðist sem ekki nokkur þingmaður, að frátöldum tveimur, meðal annars hv. málshefjanda, veltir því fyrir sér hvort viðeigandi sé að nálgast stjórnarskrána með þessum hætti. Hvort sem við erum með eða á móti ESB, á meðan við erum innan EES hljóta menn að minnsta kosti að geta orðið sammála um að við þurfum þá að breyta stjórnarskránni þannig að hún veiti Alþingi heimildir til þess sem það er að gera í hverri viku, að framselja vald, án þess að nokkrar skráðar reglur sé að finna um það í stjórnarskránni.