140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

snjómokstur.

444. mál
[16:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Það sveitarfélag sem við ræðum hér, Árneshreppur á Ströndum, hefur mjög mikla landfræðilega sérstöðu og með einhverjum hætti verður að taka tillit til þess.

Mér finnst að við séum komin í ákveðinn vítahring. Það er sagt: Það er ekki hægt að stunda þennan snjómokstur yfir háveturinn vegna þess að vegakerfið er svo lélegt. Nánast á sömu vikum er síðan verið að leggja fram samgönguáætlanir sem gera ráð fyrir því að ekki verði ráðist í úrbætur á þessum slóðum fyrr en árin 2019–2022. Skilaboðin frá ríkisvaldinu til þess fólks sem býr norður í Árneshreppi eru þá þessi: Þið verðið þá að bíða í tíu ár eftir því að þessum snjómokstursreglum verði breytt vegna þess að forsendan fyrir því er að farið verði í uppbyggingu á vegum og við ætlum ekki að fara í þessa uppbyggingu fyrr en eftir tíu ár.

Ég held að við hljótum að geta sameinast um að þetta geti ekki verið svona. Það er að mörgu að hyggja á stóru búi, ég skil það vel. En við skulum þá ekki gleyma því heldur að það fólk sem býr norður í Árneshreppi hefur ekki verið mikið kröfugerðarfólk þegar kemur að fjármunum ríkisins. Þær kröfur sem uppi eru þar eru mjög sanngjarnar um að einhvern veginn verði reynt að tryggja eðlilegar samgöngur frá Árneshreppi til annarra landshluta. Flugsamgöngurnar eru mjög góðar, þær skipta miklu máli. En eins og ég sagði hér áðan henta þær alls ekki öllum og eru ekki fullnægjandi.

Við hljótum því að óska eftir því mjög afgerandi við hæstv. innanríkisráðherra að farið verði í að endurskoða þessa reglu hvað varðar Árneshrepp vegna þeirrar miklu sérstöðu sem það sveitarfélag býr við. Helmingamokstur er ekki mikil hjálp fyrir þetta litla sveitarfélag þar sem búa rétt rúmlega 50 manns. Það er mjög kostnaðarsamt fyrir pyngju sveitarsjóðs þó að það sé kannski ekki mjög kostnaðarsamt fyrir pyngju ríkissjóðs. En engu að síður er það þannig að helmingaskiptareglan, (Forseti hringir.) helmingamokstursreglan, hentar bara ekki fyrir Árneshrepp því að eins og oddviti hreppsins sagði í útvarpsviðtali um daginn: Sveitarfélagið hefur nóg annað við peningana að gera. Það er nóg af verkefnum sem sveitarfélagið þarf að sinna eins og Oddný Þórðardóttir oddviti sagði í útvarpsviðtali.