140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

íþróttaiðkun fatlaðra.

298. mál
[16:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu hér á þingi. Ég held í sjálfu sér að ekki sé vanþörf á.

Ég vil samt ítreka það að þó að við sjáum kannski fyrst núna ákveðin merki, ákveðinn afrakstur af vinnu, merkir það ekki að áhuginn hafi ekki verið fyrir hendi. Íþróttastefnan var að sjálfsögðu unnin og tók verulegan tíma að vinna hana því að hún var í unnin í góðu samráði við aðila í hreyfingunni.

Sama má segja um þau auknu framlög sem hv. þingmaður vísar í. Það er vissulega rétt að fram að því hafði verið skorið niður, en það á við um nánast allt annað í ríkisrekstrinum. Ég vil að minnsta kosti ekki kenna áhugaleysi um heldur brýnni nauðsyn.

Að öðru leyti þakka ég hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnir hans, bæði í dag og fyrir tveimur vikum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum þetta.

Ég tek undir með hv. þingmanni að nú tekur í raun og veru við að vinna að íþróttastefnunni, hvernig megi best innleiða hana og líka að skoða hvaða fjárframlög við getum látið fylgja henni.