140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

sykurneysla barna og unglinga.

292. mál
[17:35]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er vel við hæfi, þótt fyrirspurninni sé seint svarað vegna þess að við höfum ekki náð saman, fyrirspyrjandi og sá sem hér stendur, að fagna þessari umræðu vegna þess að það stendur einmitt yfir tannverndarvika núna. Þar er þegar hafin umræða um að eitt sinn var stungið upp á einum sælgætisdegi í viku, sem átti að hafa tannverndandi áhrif þar sem allir hinir dagarnir væru þá sælgætislausir. Það hefur nú þróast í að vera algert sælgætissvall á laugardögum hjá fjölskyldum þessa lands, sem er dapurlegt í sjálfu sér.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson beindi til mín spurningu varðandi sykurneyslu barna og unglinga. Hann spurði hvort gerð hefði verið rannsókn eða úttekt á sykurneyslu barna og unglinga. Ef ekki hvort til stæði að láta gera slíka rannsókn eða úttekt.

Þó nokkrar kannanir hafa verið gerðar á Íslandi á undanförnum árum sem gefa upplýsingar um sykurneyslu barna og unglinga. Má þar fyrst nefna rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í næringarfræði sem staðið hefur fyrir fjölda rannsókna á næringu ungbarna, barna og unglinga. Dæmi um rannsóknir á þeirra vegum er rannsókn á mataræði þriggja og fimm ára barna frá árinu 2007 og rannsókn á mataræði níu og 15 ára barna á árunum 2003–2004.

Í rannsókninni frá árinu 2007 kemur fram að þriggja ára börn fengu að meðaltali 7% orkunnar úr viðbættum sykri og fimm ára börn um 9% orkunnar. Í rannsókninni frá 2003–2004 kom fram að níu ára börn fá um 13% orkunnar úr viðbættum sykri og 15 ára börn um 16%. Þess má geta að ráðlagt er að viðbættur sykur sé að hámarki 10% orkunnar að meðaltali á dag og eru ráðleggingarnar svipaðar í flestum Evrópulöndum. Þegar skoðað er hvaðan börn og unglingar fá mestan viðbættan sykur, þ.e. úr hvaða fæðuflokkum eða fæðutegundum, sést að níu og 15 ára börn fá viðbættan sykur úr sykruðum gos- og svaladrykkjum, eins og fram kom í máli hv. þingmanns og málshefjanda, og úr sælgæti og ís. Fimm ára börn fá mestan viðbættan sykur úr kexi og kökum og þriggja ára börn úr mjólkurvörum.

Á vegum Rannsóknarstofu í næringarfræði stendur nú yfir könnun á mataræði sex ára barna. Er reiknað með að niðurstöður könnunarinnar liggi fyrir næsta vor. Auk rannsókna á vegum Rannsóknarstofu í næringarfræði hafa verið gerðar nokkrar aðrar rannsóknir á neyslu ákveðinna fæðutegunda eins og gosdrykkja og sælgæti, sem gefa vísbendingar um þróun neyslunnar. Má þar nefna rannsóknina Ungt fólk sem Rannsóknir og greining stendur fyrir sem áður var nefnd í svari og HBSC-rannsóknin frá árunum 2006 og 2010 sem Háskólinn á Akureyri stendur fyrir í samstarfi við landlæknisembættið. Í þeirri rannsókn kemur fram að dregið hefur úr neyslu sykraðra gosdrykkja og sælgætis meðal nemenda í 10. bekk á milli áranna 2006 og 2010, en slík könnun verður næst gerð árið 2014. Því ber að fagna að sú umræða sem átt hefur sér stað innan grunn- og framhaldsskólanna er strax farin að hafa áhrif og skilar sér í bættri matarmenningu, ef svo má segja, með minni neyslu sykurs.

Þá skal einnig nefnd könnun á vegum norrænu ráðherranefndarinnar um mataræði, hreyfivenjur og holdafar sjö til tólf ára og 18–65 ára, sem gerð var á þessu ári og fyrirhugað er að endurtaka annað hvert ár. Þar sem könnuninni er nýlokið hafa niðurstöður ekki verið birtar en þær munu án efa gefa okkur gagnlegar upplýsingar um stöðu og þróun þessara mála.

Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns um hvers vegna ekki er gefið upp hverjir flytja inn sykur verð ég að viðurkenna að ég er ekki undirbúinn fyrir þá spurningu og hef ekki heyrt af þeirri umræðu, en það er full ástæða til þess að kanna það. Ég veit ekki hvort maður á að segja það í hálfkæringi, en það kom fram hjá ágætum framsóknarmanni í óformlegri umræðu að líklega væri MS, Mjólkursamsalan, stærsti innflytjandi á sykri.

Það er afar mikilvægt að við fáum þessar upplýsingar vegna þess að það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni að margar af mjólkurvörum okkar eru ansi mikið sykraðar og meira en nauðsynlegt er, þótt ég geri mér fulla grein fyrir að Mjólkursamsalan og aðrir söluaðilar hafa reynt að bjóða upp á mismunandi vörur þar sem um er að ræða bæði sykraðar og ósykraðar vörur.

Maður hefur annars þá mynd af mjólkurvörum að þær séu betur varðar en margar aðrar vörur, en það er full ástæða til að fylgjast mjög vel með þessu.

Það er líka algengt að menn merki vörur og segi að þær séu fitusnauðar — þá á ég við aðrar vörur — en geti þess ekki í leiðinni að þær eru þrælsykraðar og þess vegna óhollar.

Ég vona að ég hafi náð að svara fyrirspurnunum að mestu. Ég hef þá tækifæri til að svara frekari spurningum ef (Forseti hringir.) fleira kemur fram í umræðunni.