140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

tannskemmdir hjá börnum og unglingum.

293. mál
[17:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Fyrirspurnir mínar tengjast allar hver annarri. Eins og kom fram í máli hæstv. heilbrigðisráðherra stendur tannverndarvika yfir núna frá 29. janúar til 4. febrúar næstkomandi og þar er sjónum beint að sælgætisneyslu og ógn hennar við tannheilsu landsmanna. Við ætlum vissulega að ræða þetta allt á jákvæðu nótunum en nú erum við kannski komin að því neikvæða sem eru þær beinu afleiðingar sem sjá má af hinni óhóflegu neyslu og enn á ný erum við Norðurlandameistarar í þessum málum. Tannskemmdir eru algengari hjá börnum og unglingum hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum. 12 ára börn eru að meðaltali með rúmlega tvær skemmdar eða viðgerðar fullorðinstennur og 15 ára unglingar að meðaltali með rúmlega fjórar. Ég held að það sé rétt sem er yfirskrift tannverndarvikunnar að það verði einfaldlega að efla vitund landsmanna um tannheilbrigði og góðar neysluvenjur. Þá er svo sannarlega komið að ábyrgð foreldra, það er foreldra að stjórna slíku, en nýuppkomnar tennur hjá ungum börnum eru sérstaklega viðkvæmar fyrir sætindum og slæmri tannhirðu.

Því miður er það svo að við skerum okkur úr öðrum Norðurlöndum. Ísland er eina landið sem greiðir ekki fyrir tannheilsugæslu barna að fullu. Sá hluti sem foreldrar greiða úr eigin vasa hefur hækkað sem leiðir til þess að efnaminni fjölskyldur fara ekki með börnin til tannlæknis. Þetta sparar ekkert fyrir þjóðina og ríkiskassann vegna þess að þetta mun einfaldlega leiða til meiri kostnaðar síðar meir.

Við höfum áður lyft grettistaki í þessum efnum og ég held að nú sé komið að því að við þurfum að fara í annað slíkt átak. Það þarf að breyta hugarfarinu hvað þetta varðar. Við þurfum að skoða hvernig tannverndarfræðslan fer fram. Við náum síður til drengja en stúlkna. Skólatannlækningar voru lagðar af, því miður. Þær kosta að sjálfsögðu (Forseti hringir.) en þær munu engu að síður kosta minna en að gera samning við tannlækna og því legg ég til að farið verði í það að gera rammasamning í þessum málaflokki hið allra fyrsta.