140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

neysla barna og unglinga á svokölluðum orkudrykkjum.

294. mál
[18:04]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við höldum áfram að ræða heilsufarsmálin og færum okkur úr tannheilsunni yfir í orkudrykkina. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur beint til mín spurningum um neyslu barna og unglinga á svokölluðum orkudrykkjum.

Í fyrsta lagi er spurt hvort eitthvað sé vitað um neyslu barna og unglinga á slíkum drykkjum. Í öðru lagi er spurt hvaða ráð séu helst til að takmarka slíka neyslu.

Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda þá liggja ekki fyrir upplýsingar um neyslu orkudrykkja hjá börnum og unglingum. Slík vara er tiltölulega nýkomin á markað og í könnunum sem gerðar hafa verið hefur athygli ekki verið beint sérstaklega að þessari vörutegund. Ástæða þess að neysla barna á svokölluðum orkudrykkjum er umhugsunarverð er að í flestum slíkum drykkjum er mikið magn af koffíni auk fleiri efna, svo sem táríns og sykurs, sem gera það að verkum að þeir geta verið varhugaverðir fyrir börn og unglinga.

Í norrænni skýrslu frá árinu 2008, sem byggði á gögnum frá árinu 2002, um áhættumat tengt koffíni hjá börnum og ungmennum á Norðurlöndum, kom í ljós að meðalkoffínneysla 15–19 ára íslenskra ungmenna var þá 60 milligrömm á dag en ekki er mælt með að neysla fari umfram 2,5 milligrömm á kg líkamsþyngdar á dag. Ákveðinn hluti þátttakenda fór því yfir þau mörk á þeim tíma, sem sett höfðu verið sem efri mörk neyslu, en í skýrslunni var eingöngu talið með koffín sem kemur úr gosdrykkjum, þ.e. cola-drykkjum, því að koffíndrykkir og orkudrykkir komu ekki á markað hér á landi fyrr en árið 2009.

Hæstv. forseti. Varðandi þá spurningu hv. þingmanns hvaða ráð séu helst til að takmarka slíka neyslu má segja að það sé, eins og fram hefur komið, aðallega koffínmagn þessara drykkja sem er varhugavert og því árangursríkast að skoða hvort mögulegt er með reglugerðarbreytingu að setja ákvæði um varúðarmerkingar hvað varðar neyslu barna og unglinga, barnshafandi kvenna og kvenna með barn á brjósti á koffíni og eins um hámarksmagn koffíns í orkudrykkjum. Slíkar tillögur eru nú til skoðunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu en þar er unnið að reglugerðarbreytingum innan þeirra marka sem EES-löggjöfin heimilar. Einnig væri vert að skoða hvort setja ætti reglur um að ekki megi selja börnum undir ákveðnum aldri, t.d. yngri en 15 eða 18 ára, orkudrykki með koffíni.

Þar sem koffín er vanabindandi efni og börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum þess þarf að fræða börn og unglinga, foreldra þeirra, skólayfirvöld og starfsfólk íþróttafélaga, svo að dæmi séu tekin, um orkudrykki og koffíninnihald þeirra og áhrif þess á heilsu. Árið 2009 gaf Matvælastofnun út fræðslubækling um koffín og gert hefur verið fræðsluefni um koffín sem skólahjúkrunarfræðingar geta nýtt í fræðslu sinni í grunnskólum landsins. Þá er fræðsluefni um koffín á ýmsum vefsíðum, svo sem hjá embætti landlæknis.

Ég vona að þetta svari fyrirspurn hv. þingmanns um neyslu barna og unglinga á svokölluðum orkudrykkjum og hvaða möguleikar eru til að sporna við þeirri neyslu. Þessir orkudrykkir eru eitt af einkennum sölumennskunnar þar sem verið er að leita í skyndilausnir í sambandi við að leysa ákveðin mál, fá aukna orku til skamms tíma, byggja sig hraðar upp í líkamsrækt o.s.frv. Almennt held ég að maður verði að vara við slíkum skyndilausnum sem eiga að bjarga öllu á skömmum tíma án þess að viðkomandi þurfi að leggja sig nokkuð fram sjálfur til að ná þeim árangri sem stefnt er að.