140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því þegar menn koma hér upp í löngum röðum, hv. stjórnarþingmenn, og segja að það sé sjálfsagt að rannsaka einkavæðinguna hina síðari. Það er ofsalega góð hugmynd að byrja þá rannsókn á að svara fyrirspurnum sem framkvæmdarvaldinu er skylt að gera. Ég vil enn og aftur minna á að ég bað um hluthafasamkomulagið milli gömlu og nýju bankanna. Ég efast ekki um að núna muni hv. þingmenn, sem baða sig í ljósi fjölmiðlanna út af sannleiksást, virkilega leggja sig alla fram við að sjá til þess að þeir fái þessar sjálfsögðu og eðlilegu upplýsingar. Ég bíð spenntur eftir að þeir komi hlaupandi með þessar sjálfsögðu upplýsingar, ég tala nú ekki um svör við fyrirspurn í tengslum við Byr, SpKef og annað þess háttar. En þessi einkavæðing sem menn vildu og vilja, og er sjálfsagt að skoða, sem var fyrir áratug, er aðeins brot af því sem hefur verið í gangi í dag.

Virðulegi forseti. Ég vona líka að hv. stjórnarþingmenn átti sig á ákveðnum staðreyndum. Núna eru 26.096 á vanskilaskrá. Fólk fer ekki á vanskilaskrá nema það hafi lent í mjög miklum vanskilum. Fjölgunin á tímabili ríkisstjórnarinnar er 11.648. Þetta segir mér að við þurfum að skoða skuldamál heimilanna. Það segir mér líka að við þurfum að skoða skuldamál heimilanna þegar atvinnuþátttaka hefur aldrei mælst minni. Og fólksflóttinn hefur (Forseti hringir.) aldrei mælst meiri. Ég vona að við náum samstöðu um að fara í þessi mál en afgreiða þetta ekki út af borðinu eins og hæstv. forsætisráðherra hefur (Forseti hringir.) enn og aftur reynt að gera.