140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er dæmalaust að hlusta á stjórnarliða hér í dag. Ég verð aðeins að koma hér að orðum hv. þm. Magnúsar Orra Schrams sem talaði áðan og minna hv. þingmann á að Samfylkingin hefur nú þegar setið tæp fimm ár í ríkisstjórn, og svo kemur hv. þingmaður hér upp og talar eins og það sé allt öðrum að kenna að hér sé flókið skattkerfi. Þessi þingmaður situr í ríkisstjórn fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, sem samkvæmt nýjustu tölum hefur staðið fyrir því að breyta skattalögum 170 sinnum. Hvernig geta þingmenn ríkisstjórnarinnar komið hér fram og talað fyrir einfaldara skattkerfi? Jú, þeir tala fyrir einfaldara skattkerfi og tollakerfi í IPA-málinu svokallaða því að nú á að taka upp á Íslandi vegna ESB-umsóknarinnar og IPA-styrkjanna algjört tolla- og skattfrelsi fyrir þá aðila sem koma til að vinna hér í gegnum Evrópusambandið og framfylgja því og uppfylla það að eyða þessum 5 þús. milljónum hér á landi. (Gripið fram í: Ég var ekkert …) Ég er búin að skrifa grein um þetta og hvet ég þingmenn til að lesa sér til um hvað þetta virkilega þýðir í raun og sann fyrir okkur Íslendinga.

Ég ætlaði fyrst og fremst að tala um verðtrygginguna á lánunum, frú forseti, og minna jafnframt á að hæstv. forsætisráðherra hefur setið tæp 35 ár á þingi og þetta hefur verið mesta baráttumál hennar allar götur að afnema verðtryggingu lána. Nú hefur þessi hæstv. ráðherra setið fimm ár í ríkisstjórn, þar af þrjú ár sem forsætisráðherra, og það gerist ekki neitt. Það gerist ekki neitt því að gjarnan kemur sá hæstv. ráðherra hingað í pontu, steytir hnefann og kennir íhaldinu um allt. Ég minni á það enn og aftur að Samfylkingin hefur setið fimm ár í ríkisstjórn (Forseti hringir.) og hefur haft allan þann tíma, fimm ár, til að breyta því sem gagnrýnt var svo mikið á árum áður en það hentar ekki.