140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

ábyrgð og eftirlit hins opinbera gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu í ljósi sílikonpúða-málsins.

[14:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð sem féllu áðan, í ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, að það væri einkennileg staða að þurfa að ræða sama málið tvisvar sama daginn, fyrst kl. 14 og síðan kl. 14.30. Það er eitthvað sem ríkisstjórnin þarf að eiga við sjálfa sig en breytir því ekki að málið er alvarlegt.

Hér er verið að ræða um að ábyrgð og eftirlit hins opinbera í brjóstapúðamálinu hafi brugðist eins og hjá svo mörgum öðrum eftirlitsstofnunum sem komið hefur verið á fót hin síðustu ár; og þá gjarnan með vísan í reglugerðir Evrópusambandsins.

Við skulum ekki gleyma því hvernig þetta mál byrjar. Þessir púðar eru vottaðir af Evrópusambandinu sem gefur til kynna að búið sé að fara í gegnum rannsóknir á púðunum og í lagi sé að nota þá til þess sem þeir voru notaðir, að setja þá í brjóst íslenskra kvenna. Það er háalvarlegt, sérstaklega í ljósi þess að Bandaríkjamenn hættu að nota þessa brjóstapúða fyrir 10 árum. Samt var málið ekki rannsakað af hálfu Evrópusambandsins og sá læknir sem um ræðir, sem setti þessa púða í konurnar, varaði við því árið 2010 að Bandaríkjamenn hefðu tekið þessa brjóstapúða af markaði og kom þeim skilaboðum á framfæri til landlæknisembættisins. Ekkert var gert með þær upplýsingar.

Hugsið ykkur að landlæknir skuli hafa búið yfir þessum upplýsingum, að þessir púðar væru jafnvel skaðlegir, án þess að gera neitt í málinu. Mér finnst ábyrgðin liggja hjá hinu opinbera, hjá eftirlitsaðilum og hjá landlækni en það er því miður í þessu máli, eins og öðrum eftirlitsmálum sem hafa komið upp síðustu mánuði, að það ber enginn ábyrgð. Það er enginn sem stígur fram og segist ætla að bera ábyrgð. Það er sorglegt.