140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

viðbrögð heilbrigðisyfirvalda vegna frétta um iðnaðarsílikon í brjóstapúðum.

[15:04]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað sem hefur verið ágæt með heiðarlegum undantekningum þó. Hér hefur komið skýrt fram, sem er reyndar löngu komið fram, að það er eins og enginn vilji bera ábyrgð á þessu máli. Það er dálítið algengt í samfélaginu hjá okkur, þ.e. að margir vilja fá að bera ábyrgð og fá einhverja umbun fyrir það en færri vilja axla hana þegar á hólminn er komið. Þetta heyrum við nánast daglega og höfum heyrt í mörg ár, því miður.

Við getum brugðist við, við sem þó erum hér, óháð því hverjir muni á endanum axla ábyrgð á þessu og það er kannski það sem við eigum að fjalla um. Að sjálfsögðu munu og verða stjórnvöld að bregðast við með einhverjum hætti, við mismunum ekki fólki í heilbrigðiskerfinu. Þetta er munurinn á opinberu kerfi og einkaheilbrigðiskerfi, allir eiga aðgang að hinu opinbera heilbrigðiskerfi, hver sem á í hlut, og skiptir ekki máli hvort rætur vandans megi rekja að einhverju leyti til einkavæðingar heilbrigðiskerfisins eða til lækna sem starfa á einkavegum eins og dæmin sanna í þessu tilfelli. Þess vegna eru viðbrögð stjórnvalda fyrst og fremst þau að þannig verði brugðist við að þær konur sem hér eiga í hlut fái fulla tryggingu fyrir því að mál þeirra verði leyst með fullnægjandi hætti, hvernig sem það verður gert. Það verður að vera hafið yfir allan vafa að heilbrigðiskerfið standi með þeim sem hér um ræðir allt til enda og að þeir eigi rétt á að fá greitt úr sínum málum.

Þetta dæmalausa klúður, allt frá upphafi, undirstrikar mikilvægi opinbera heilbrigðiskerfisins og mikilvægi þess að við stöndum vörð um það og að allir eigi jafnan aðgang að því. Það er kannski stóra málið sem við eigum að tryggja hér.