140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

viðbrögð heilbrigðisyfirvalda vegna frétta um iðnaðarsílikon í brjóstapúðum.

[15:09]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hluta af því máli sem var tekið til sérstakrar umræðu áðan og nú er rætt um viðbrögð stjórnvalda við því ástandi sem upp er komið. Hæstv. velferðarráðherra hefur lagt fram ákveðna tillögu og kallar eftir með bréfi til þeirra kvenna sem hugsanlega hafa þá gölluðu vöru eða þá púða sem um ræðir í brjóstum sínum. Boðið er upp á ómskoðun. Fram kom í velferðarnefnd í gær, líkt og hér hefur komið fram, að ómskoðun er ekki óbrigðul, hún getur bæði sýnt fram á að púðinn leki þó að hann leki ekki og að hann sé í lagi þó að hann leki.

Einhver hugmynd hlýtur því að vera uppi um það hvort bjóða eigi þeim konum sem eru með þessa gölluðu vöru sem flutt er inn, þrátt fyrir að að hún sé vottuð einhvers staðar úti í hinni stóru Evrópu, upp á brottnám púða á kostnað hins opinbera en það sé síðan ákvörðun þeirra sjálfra hvort þær óski eftir að fá ísetningu nýrra púða, þá með þátttöku þeirra. Við hljótum að þurfa að velta þessari hugmynd upp samhliða því sem nú er verið að gera, vegna þess að ljóst er að þessir púðar geta lekið, í þeim er iðnaðarsílikon sem er hættulegt mannslíkamanum og við þurfum að bregðast við því.

Það sem við getum líka lært, virðulegur forseti, af þessu máli öllu er, og það er algjörlega kýrskýrt í mínum huga, að hafi einhvern tíma verið nauðsyn á samræmdum rafrænum sjúkraskrám kemur það berlega í ljós núna. Við stæðum ekki í þeim vanda sem fylgir því að nálgast þær konur sem fengu þessa (Forseti hringir.) íhluti í sig ef samræmdar rafrænar sjúkraskrár væru fyrir hendi. (Forseti hringir.) Þeim ber að flýta.