140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

viðbrögð heilbrigðisyfirvalda vegna frétta um iðnaðarsílikon í brjóstapúðum.

[15:18]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu sem hefur verið ítarleg og löng, í fyrsta lagi vegna þess að mér finnst það skipta miklu máli að sátt er orðin um það sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir benti á, að eðlilegt sé að íslenska ríkið grípi inn í og aðstoði þegar svona mál koma upp. Það var nefnilega alls ekki sjálfsagt í byrjun og það er enn þá ekki sjálfsagt í allri Evrópu að ríkið skipti sér af því sem áður voru kallaðar fegrunaraðgerðir og gerðar eru á ábyrgð viðkomandi einstaklinga. Ég var og er einlægt þeirrar skoðunar að við eigum að grípa inn og ég sagði það strax. Þess vegna settum við strax í gang þá vinnu að bjóða öllum að koma í skoðun og ekki bara í ómskoðun, heldur, ef fylgja ætti því eftir, einnig með röntgen og MRI sem svarað getur betur þeim spurningum sem það varðar.

Það var einmitt af þeim ástæðum sem öllum konum var boðið að fara í gegnum þetta ferli, en við áskildum okkur rétt til að fylgja því eftir með því að skoða betur hvert framhaldið yrði með þeim bestu upplýsingum sem við gætum fengið á hverjum tíma, bæði frá útlöndum og úr viðtölum innan lands.

Menn geta kallað það hvað sem þeir vilja, menn geta kallað það ábyrgðar- og athafnaleysi, en það er athyglisvert að íslensk stjórnvöld hafa þrátt fyrir allt gengið mun lengra en allar Evrópuþjóðir hvað þessa þætti varðar, hvað varðar hlutdeild ríkisins, að vísa ekki bara á einkastofurnar og segja: Þið bara verðið að sjá um þetta. Þau fyrirmæli eru ekki með neinu lögboði heldur aðeins tilmælum.

Auðvitað hafa vaknað fjöldamargar spurningar. Mér finnst þó skipta mestu máli að við höldum okkur við þessa línu. Við ætlum að þjónusta þessar stúlkur, þessar konur. Við ætlum að fylgja þeim málum eftir. Við sem íslenska ríkið ætlum að taka ábyrgð og hlúa að því fólki sem lent hefur í erfiðleikum algjörlega að ósekju. Það þýðir að ég get ekki svarað spurningunni um það hversu langt við göngum fyrr en ég veit meira um hversu langt þarf að ganga. Þar verð ég að treysta á að faglegt mat sé lagt á hvort áhættan af því að gera aðgerðir eða bíða með það og seinka þeim sé (Forseti hringir.) betra fyrir viðkomandi konur. Það verður auðvitað að meta út frá þeim sjálfum. Við getum ekki svarað því hvort það sé lokaákvörðun, (Forseti hringir.) við höfum lagt fram áætlun. Hún er löngu komin fram. Við fylgjum henni. Menn geta skammast fyrir hversu seint það er. (Forseti hringir.) Ábyrgðin er alltaf ríkisins á endanum og við munum að sjálfsögðu axla hana með því að þjónusta þessar konur (Forseti hringir.) eins vel og hægt er.