140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[16:32]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Herra forseti. Ég lýsi því yfir að ég er andsnúinn því máli sem hv. þm. Helgi Hjörvar leggur hér fram öðru sinni ásamt fleiri tveimur öðrum samfylkingarmönnum, en um leið fagna ég því mjög að þingmaðurinn leggi málið fram. Ég mun rökstyðja það hér.

Hv. þingmaður hefur talað um að ekki megi skipta gæludýrum í hópa, með og á móti ESB. Hins vegar gefur það ákveðið tilefni til að ræða stefnu Evrópusambandsins í þessum málum þegar hv. þingmaður leggur í raun til að tekið verði upp það kerfi sem Evrópusambandið býr við í þessum málaflokki. Það er einmitt eitt af því sem menn hafa varað við sem tengist Evrópusambandsaðild, þ.e. frjáls innflutningur á dýrum, gæludýrum, búfénaði og fleiru, til landsins og sú hætta sem kann að hljótast af því.

Ég fagna því að hv. þingmaður skuli leggja þetta mál sjálfstætt fram fyrir Alþingi. Það er einmitt það sem margir Evrópusambandsandstæðingar hafa hvatt hv. þingmenn Samfylkingarinnar til þess að gera sem vilja ná í gegn ákveðnum breytingum á lagaumgjörð okkar Íslendinga, það sé kjörinn vettvangur til að leggja fram breytingar og hugmyndir sem fá síðan umfjöllun.

Ég sagði við síðustu umræðu málsins að ég teldi mjög líklegt að þingheimur væri þeirrar skoðunar að í þessu fælist of mikil áhætta fyrir gæludýr og önnur dýr, fyrir sjúkdómastöðu á dýrum og gæludýrum á Íslandi. Þess vegna mundi Alþingi að öllum líkindum hafna þessu frumvarpi. Hvað er nú komið á daginn? Málið hefur ekki fengið afgreiðslu í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og nú er hv. þingmaður kominn með það enn og aftur. Gefur það ekki tilefni til þess að það sem bent var á við 1. umr. málsins á síðasta þingi eigi kannski við einhver rök að styðjast en að ekki sé þingmeirihluti fyrir málinu vegna þess að menn telji of mikla áhættu fólgna í því að leyfa óheftan innflutning á dýrum og búfénaði?

Komið hefur verið inn á margt í umræðunni og hún hefur um margt verið ágæt. Meðal annars hefur verið fjallað um að eftirlitskerfið sé allt svo gott, að það þurfi ekki þessar ströngu reglur, það þurfi ekki vegna þess að við séum með fullkomið heilbrigðisvottorðakerfi eða vegabréfakerfi innan Evrópusambandsins sem ætlunin sé að taka hér upp, þess vegna sé ekkert að óttast í þessum efnum. Ég held að bara fréttir síðustu vikna um okkar ágæta eftirlitskerfi og umræðurnar sem voru hér fyrr í dag um eftirlit með sílikonpúðum, gefi ákveðna vísbendingu um að ýmislegt geti nú farið úrskeiðis þegar kemur að eftirliti með slíku.

Við skulum ekki gera lítið úr þeim röddum sem vara við því sem þetta kann að hafa í för með sér.

Margir hafa þegar bent á, bæði í tengslum við þetta mál og önnur, að þetta feli í sér áhættu. Til að mynda má benda á ummæli dr. Margrétar Guðnadóttur, veirufræðings og fyrrverandi prófessors í sýklafræði, sem varar mjög við því að frumvarpið nái í gegn. Þar talar fagmaður. Deildarstjóri hjá Bændasamtökunum sagði um málið þegar það var lagt fram á síðasta þingi í fréttaviðtali, með leyfi herra forseta:

„Það eru alls ekki allir sjúkdómar í Evrópu sem eru skráðir eða eftirlitsskyldir. Slíkir sjúkdómar, þótt þeir valdi kannski ekki miklum usla í Evrópu þar sem veirur eða annað sem veldur þeim hefur verið þekkt um langa tíð, valda miklum usla þegar þeir koma hingað til lands. Bara nýjasta dæmið sem öllum má vera kunnugt er þegar hér geisaði pest í hrossastofninum á Íslandi með tilheyrandi stórtjóni fyrir hrossabændur og hrossaræktina, þannig að svona heilbrigðisvottorð veita aldrei þá vörn sem við teljum fortakslaust vera hér fyrir okkar búfjárstofna sem hafa verið einangraðir um aldir hér á landi.“

Fleiri ríki beita mjög skynsamlegri stefnu í þessum efnum. Það eru ekki ríki sem menn tala um að séu aftarlega á merinni eða séu einangruð eða þvíumlíkt, til að mynda Nýja-Sjáland sem hefur mjög strangar reglur um innflutning á öllum búfénaði þangað til lands og á öllum dýrum. Ef maður er til að mynda tekinn með hrátt kjöt í tollinum á leið til Nýja-Sjálands eru við því strangari viðurlög en við eiturlyfjainnflutningi til landsins.

Þá hlær hv. þingmaður. En hvers vegna er þetta svona? Nýja-Sjáland er land sem býr við góða sjúkdómastöðu. Þar er ekki mikið af búfjársjúkdómum. Landið er laust við alla verstu og skæðustu sjúkdómana sem önnur ríki víða í heiminum hafa mátt glíma við. Það er jafnt á komið með okkur Íslendingum. Við erum laus við þessa sjúkdóma, það er mjög mikilvægt að við nálgumst málið með því hugarfari.

Við sáum hvaða áhrif hestapestin hafði á sínum tíma hér á landi. Nýsjálendingar vita hvað það þýðir ef sjúkdómar berast þangað til lands.

Fyrst rætt er um innflutning á dýrum til lands þar sem sjúkdómastaðan er jafngóð og hún er á Íslandi, er ágætt að rifja upp sögu af því þegar verið var að flytja inn nýjan sauðfjárstofn til Nýja-Sjálands fyrir einum 10, 15 árum síðan. Þá var það gert með þeim hætti að fluttir voru inn fósturvísar og þeim komið fyrir í skepnum á Nýja-Sjálandi á búi sem var algjörlega lokað. Þar voru aldir upp tveir ættliðir og þegar búið var að gera próf á þeim var þeim síðan komið áfram í framleiðslu, en um leið og því var lokið var búgarðurinn jafnaður við jörðu og allt brennt. Við skulum nálgast þessa umræðu af mikilli yfirvegun og átta okkur á mikilvægi þess að halda dýrastofnum á Íslandi hreinum og lausum við sjúkdóma.

Svo ég beri aftur saman sjúkdómastöðuna í dýrum á Íslandi og á Nýja-Sjálandi er hún mjög lág á báðum stöðum og við höfum gríðarlega mikil tækifæri til að halda henni áfram lágri og vera laus við þá sjúkdóma sem mörg ríki glíma við vegna þess að um er að ræða eyjar í báðum tilfellum sem ekki tengjast meginlandinu. Við megum og verðum, herra forseti, að fjalla um málið í því samhengi.

Öll rök um að diplómatar hafi mátt flytja inn gæludýr fyrir 1990 og þess vegna sé mikilvægt að leyfa óheftan innflutning dýra núna, eru haldlítil. Hvernig var tekið á því máli? Við höfum hert reglur okkar og aukið eftirlitið með þessum málum.

Það væri nær að við fjölluðum um hvernig við Íslendingar með búfjárstofna okkar getum eflt og aukið góða sjúkdómastöðu dýranna okkar og varið hana enn frekar en að tala um málið á þeim nótum sem gert hefur verið.

Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði talað væri um að taka upp kerfi með heilbrigðisvottorðum og ef það væri til staðar og gæludýrin væru komin með slíkt vottorð eða vegabréf væri þetta nú í góðu lagi. Ég kynnti mér það aðeins í tengslum við búfénað og fullyrði, og það hefur reyndar komið fram hjá fleirum í umræðunni, að þessi heilbrigðisvottorð geta verið skeikul og það hvað þulið er upp í þeim. Gæludýr hafa komið hingað til lands en hafa síðan greinst með sjúkdóma sem ekki var getið um í heilbrigðisvottorðinu.

Það er nákvæmlega sama kerfið fyrir gæludýr og búfénað innan Evrópusambandsins, heilbrigðisvottorða- eða vegabréfakerfi. Það einkennist fremur af skrifræði en raunverulegu eftirliti.

Ég kom á kúabúgarð í Bretlandi fyrir einu og hálfu ári síðan og heimsótti þar kúabónda sem þurfti að halda slíkt heilbrigðis- eða vegabréfakerfi fyrir bústofn sinn. Ég kom inn á skrifstofuna til hans þar sem allir veggirnir voru með litlum skúffum allt frá gólfi og upp í loft, 10x10 eða 20x20 sm á stærð. Hann dró þær út og sýndi mér innihald þeirra og sagði: Þetta eru vegabréfin fyrir skepnurnar. Ég spurði: Hvað gera menn við þetta hér í Bretlandi? Bóndinn svaraði: Það er nú lítið gert með þetta, þetta er bara fyllt út fyrir pappírsyfirvöldin. Ef við fyllum þetta ekki út með einhverjum hætti og erum síðan stöðvaðir þegar við erum að flytja gripina á milli búa eða í sláturhús, fáum við gríðarlega háar sektir. Ég spurði: Leggja menn mikla vinnu í að fylla þetta út? Bóndinn svaraði: Nei, það gerir nú ekki nokkur maður svo ég viti.

Við verðum að setja þetta í samhengi. Þegar maður ræðir um innflutning á dýrum og að taka upp sama kerfið og gildir yfir búfénaðinn og opnar landið fyrir þessu þegar sýnt er að sjúkdómastaða hjá gæludýrum — og sjúkdómar geta borist á milli eins og hefur verið bent á í umræðunni í dag. Það er ekki hægt að slíta þetta í sundur.

Jafnvel þótt menn tali um eftirlit, eftirlit og aftur eftirlit hefur það bara sýnt sig undanfarnar vikur að eftirlitið getur verið skeikult. Við Íslendingar eigum hreint land sem við skulum státa okkur af, við skulum ekki tala það niður. Það gekk ekki þrautalaust fyrir sig að ná því að vera með hreint land án sjúkdóma. Við skulum fremur leita leiða til þess að styrkja það en að leggja fram mál sem eiga að vinna þvert gegn því.

Ég á fyllilega von á því að málið verði lagt fram aftur til 1. umr. á næsta þingi, herra forseti. Þá mun ég líklega fjalla um það aftur. Ég er næstum viss um að staðan er óbreytt frá því þegar málið var rætt síðast, að ekki er þingmeirihluti fyrir því vegna þess að Íslendingar hafa skilning á því og vilja halda dýraheilbrigði hér í hámarki eins og verið hefur áratugum saman.