140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[16:45]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mikið væri gaman ef við gætum samþykkt þetta frumvarp og við gætum ferðast með dýrin okkar á milli landa en ég er ekki alveg viss um að svo verði. Ég hef enga sérfræðiþekkingu á þessu sviði og vil alls ekki gera lítið úr þeirri áhættu sem til dæmis Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður og dýralæknir, reifaði hérna áðan. Ég hef haldið gæludýr, og hesta reyndar líka, nánast alla mína ævi og er búin að eiga hunda í 22 ár. Ég hef reynslu af því að flytja hund til útlanda, ekki minn eigin en fyrir fjölskyldumeðlim, og það var eiginlega alveg ótrúlega lítið mál. Ég fór síðustu páska með hund, flaug með hann til Seattle í Bandaríkjunum, átta tíma flug, og keyrði með hann þaðan til Kanada. Það eina sem við þurftum að hafa meðferðis var vottorð um að ekki væri hundaæði á Íslandi. Það var nú allt og hundurinn lagði sig bara á meðan og var ekkert laskaður af þessari reynslu.

Á þeim 22 árum sem ég hef haldið hunda hafa dýrasjúkdómar og sjúkdómar í hundum aukist mjög mikið. Fyrir um 18 árum kom upp parvóveiran sem nú er bólusett fyrir, en maður heyrir miklu meira af sjúkdómum en áður. Ég held að það sé kannski einkum tvennt eða þrennt sem veldur því. Fyrsta atriðið er aukin ferðalög. Við búum vissulega á eyju en hér eru samgöngur og menn ferðast. Ég hef oft velt því fyrir mér að þegar ég hef arkað um borgir í útlöndum hef ég kannski, ef til vill án þess að hafa tekið eftir því, stigið í hundaskít og þá er ég að bera einhverja sjúkdóma heim til mín sem hundurinn minn gæti smitast af.

Í öðru lagi tíðkast hér verksmiðjubúskapur á hundum þar sem hundar búa ekki við góðar aðstæður. Það hefur sýnt sig að þeir hundar sem koma frá slíkum búum eru mun veikari eða eru miklu fremur veikir strax sem hvolpar og bera auk þess alla ævi ýmsa andlega kvilla. Hvolpar sem koma frá slíkum búum eru oftar en ekki með eyrnamaur og jafnvel uppfullir af ormum. Þetta hefur verið vandamál sem ekki hefur verið tekið á og mér finnst það algjört hneyksli.

Það þriðja sem væri hægt að nefna eru erfðasjúkdómar vegna of mikillar ræktunar. Á meðan við sinnum ekki þeim þáttum, sem er heimatilbúinn vandi, er spurning af hverju við ættum að berjast svona mikið gegn hættunni sem hugsanlega kæmi erlendis frá ef við leyfðum dýrum að ferðast með eigendum sínum eða umsjónarmönnum.

Mig langar líka aðeins að nefna annað, að við erum ekki alltaf sjálfum okkur samkvæm. Við erum með strangar reglur um innflutning á lifandi dýrum en eins og ég nefndi áðan er ýmislegt fleira sem getur fært sjúkdóma hingað til landsins, eins og t.d. skófatnaður og fleira. Hingað fljúga náttúrlega fuglar, við stöndum ekki á Austurlandi og skjótum farfuglana, vorboðana.

Mig langar að lokum að nefna eitt dæmi. Árið 2008 kom enn einn ísbjörninn hér á land og brugðist var við með því að flytja hingað stórt búr frá dýragarðinum í Danmörku. Það var flutt hingað eins hratt og hægt var. Þetta búr var úr mótatimbri sem áður hafði geymt ljón, gíraffa, flóðhesta og alls konar kvikindi og örugglega ísbirni líka. Ég velti fyrir mér á þeim tíma: Hvaða sjúkdómar gætu hafa borist með því búri og hvernig hefði átt að uppfylla ströngustu skilyrði um hreinlæti? Ég velti því einmitt fyrir mér því að auðvitað var farið með búrið að þeim stað sem ísbjörninn kom á land sem var í landbúnaðarhéraði. Hvaða hættu vorum við að bjóða heim þá?