140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

stjórn fiskveiða.

202. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Úr því að hv. þingmaður nefnir Seltjarnarnes fær það úthlutað 327,2 tonnum samkvæmt veiðireynslu sem var til staðar á Seltjarnarnesi árið 1991. Það sama gildir um Kópavog og alla þá staði sem byggðu á veiðireynslu á þeim tíma þegar kvótakerfinu var komið á.

Veiðireynslufyrirkomulagið er það eina réttláta í þessu. Það er það sem upprunalega var lagt af stað með, það byggði á þeirri afkomu sem þessar byggðir höfðu af sjávarútvegi á þeim tíma þegar kvótinn var settur á. Með allri handstýringu út fyrir það síðan er verið að krukka með einhverjum hætti í kerfið og það er ekki æskilegt. Svo má að sjálfsögðu gera sér grein fyrir því að svona kerfi eru ekki meitluð í stein og munu þegar fram líður taka einhverjum breytingum.

Hvað varðar byggðaþróun síðan 1991 hefur hún að stórum hluta verið vegna þess að aflaheimildir hafa flust burtu úr sjávarplássunum. Einhver önnur atvinna hefur tekið við á mörgum stöðum en annars staðar ekki. Ég segi það oft í þessari umræðu að Siglfirðingar munu aldrei lifa af því að selja ferðamönnum Sinalco eða hverjir öðrum Sinalco, ekki einu sinni á öllum þeim stöðum og söfnum sem þeir hafa þó af mikilli eljusemi komið sér upp á undanförnum árum. Sjávarútvegur er arðbær alvöruatvinnugrein og sjávarbyggðir í kringum allt land eiga að njóta stöðu sinnar og hefðar í þeim málum og fá að veiða þann fisk sem er fyrir utan byggðarlögin.

Hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslurnar hefur það ekki verið siður á Íslandi, a.m.k. ekki í forsetakosningum, að það sé kosið þangað til hreinn meiri hluti fæst heldur er kosið á milli margra frambjóðenda og sá sem fær flest atkvæði sigrar. Það er ekkert endilega æskilegasta fyrirkomulagið en það sama mætti gilda um þetta. Það má kjósa um þrjár eða fleiri aðferðir en þegar upp er staðið verður kosið um þær tvær sem urðu hlutskarpastar þannig að ein verður ofan á með hreinum meiri hluta.