140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

stjórn fiskveiða.

202. mál
[17:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið um strandveiðarnar. Þá kemur í ljós að þarna kaupa menn kvótann eftir á þannig að það er kannski ekki eins mikill akkur í því og er við núverandi strandveiðar.

Varðandi uppgjör á útgerðarfélögum, sum útgerðarfélög hafa ekki tekið lán heldur safnað eignum og eiga töluverðar eignir sem við skulum segja að séu í öðru en skipum. Ég geri ráð fyrir að það verði miklar breytingar á verðlagi skipa, að þau snarlækki í verði eða ég átta mig ekki alveg á hvað gerist við svona mikla uppstokkun. Mörg fyrirtæki munu hætta rekstri, sennilega flest. Önnur fara að kaupa kvóta og það verða miklar uppstokkanir allt í einu. Þá er spurningin með þau fyrirtæki sem skulda lítið, þau sitja alltaf uppi með gífurlegar eignir sem þau munu ekki lengur binda í útgerð. Hefur hv. þingmaður áttað sig á því hvernig það kæmi út í ljósi réttlætis gagnvart manni sem hefur safnað eignum, öðrum sem hefur greitt út arð, þeim þriðja sem hefur tekið lán og fjórða sem hefur lagt inn eigið fé? Ég held að þetta sé töluvert mikil uppstokkun á rekstri útgerðarfyrirtækja sem getur haft miklar afleiðingar og að alveg sérstaklega fram að því að lögin taka gildi muni verða miklar sviptingar á útgerðum í landinu. Ég veit ekki hvort það er bætandi á það óöryggi sem útgerðin býr við. Kannski er það í lagi að mati þingmannsins. Hvernig lítur hann á þetta ár sem svona frumvarp er í vinnslu og gerjun?