140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held nefnilega að við séum komin hér að kjarna málsins. Þrátt fyrir að ég sé ekki að gera lítið úr þessum 340 milljónum sem fara eiga á næstu árum í slysagildrur á hverju ári — það er svo annað mál varðandi efnahagsstefnuna hvað við setjum í samgöngur, við setjum ef ég man rétt, virðulegi forseti, 4,5 milljarða á ári í þetta — þá finnst mér að 340 milljónir segi okkur að við séum ekki að forgangsraða rétt. Ég vil að við nálgumst þetta með öðrum hætti, ég vil að við forgangsröðum þannig að við tökum hættulegustu vegina og segjum: Þetta er þjóðarskömm, við ætlum að laga þetta.

Þýðir það að allt fjármagn eigi að fara í þetta? Nei, ég sagði það ekki, virðulegi forseti, en 340 milljónir er ekki nóg. Ég vil ekki standa hér, eða hver sem það nú verður, því að við vitum aldrei hvað við verðum lengi í þessu starfi, enda er það aukaatriði, ég vil að minnsta kosti ekki sem Íslendingur sjá þennan lista óbreyttan eða lítt breyttan á næstu árum. Ég hvet alla hv. þingmenn til að hugsa aðeins um þetta mál því að ef eitthvað er sameiginlegt mál okkar allra þá eru það umferðaröryggismálin. Ég trúi ekki öðru en að við séum sammála um það, eins og hæstv. ráðherra segir. Nú, sýnum það þá. Við höfum tækifæri til þess núna, sama í hvaða flokki við erum, sama hvaða kjördæmi við erum í, við höfum tækifæri til þess núna að sýna að við náum saman um að setja fólk í fyrirrúm og umferðaröryggismálin númer eitt.