140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við urðum vitni að stórpólitískum tíðindum. Hæstv. innanríkisráðherra og hv. þm. Kristján L. Möller urðu sammála í fjórar mínútur. Síðan tók við gamalkunnugt ástand.

Hæstv. ráðherra fór yfir það áðan að í því tíðarfari sem við höfum upplifað núna hefði snjómoksturinn farið 600–700 millj. kr. fram úr því sem áætlað hafði verið. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir þessum tölum. Því vil ég spyrja hæstv. innanríkisráðherra: Er ekki alveg öruggt að sú framúrkeyrsla, sem er óhjákvæmileg vegna tíðarfarsins, muni ekki leiða til þess að framkvæmdafé Vegagerðarinnar verði skert á þessu ári eða á næstu árum? Er ekki alveg ljóst að brugðist verði við þessari auknu fjárþörf Vegagerðarinnar, a.m.k. ef hún er umfram áætlanir, þannig að ekki verði skorið niður í framkvæmdum í vegagerð í landinu?

Í annan stað langar mig líka að spyrja hæstv. ráðherra um tengivegina sem hér hafa verið mjög umræddir. Fram kom hjá hæstv. ráðherra í umræðunni á fyrri stigum að það hefði verið hugmynd samgönguráðs að fjármunir til tengivega á þessu ári yrðu milljarður á ári. Ég geri mér grein fyrir að úr vöndu er að ráða. Allir kalla eftir nýjum framkvæmdum í stofnvegum o.s.frv. en telur hæstv. ráðherra að til greina kæmi að auka vægi tengiveganna með einhverjum hætti, t.d. með auknum fjármunum, til að hægt sé að bregðast við öllum óskum sem uppi eru í þessum efnum? Ég rakti áðan að vegirnir eru meira nýttir en áður, þarna eru mjög mikilvægir vegir vegna ferðaþjónustu o.s.frv. Er hæstv. ráðherra sammála mér og mörgum öðrum um að við ættum að auka enn vægi tengiveganna, þó að ég (Forseti hringir.) viðurkenni sannarlega að verið sé að gera það um 120 millj. frá því sem var í fyrra?