140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[12:10]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að byggja upp góð fjarskipti hér á landi, bæði hvað snertir búsetuskilyrði og ekki síður atvinnuuppbyggingu. Umræðurnar hér í dag hafa verið góðar líkt og í gær. Ég bind vonir við að þingheimur allur geti staðið að þessu máli eins og verið hefur, því að það er öllum ljóst að ekki hvað síst í byggðarlegu tilliti er mjög mikilvægt að halda áframhaldandi uppbyggingu á háhraðatengingum og nettengingum. Stigin hafa verið góð skref hvað það snertir, en þó er verulegur brestur á sem þarf að skoða og hefur verið komið inn á það hér í umræðunni.

Til að mynda hefur verið komið inn á stöðuna á svæðum þar sem lítil fyrirtæki hafa verið farin að starfa áður en ráðist var í hraðari nettengingar. Nú er staðan þannig að hraðari nettengingar eru alveg við bæjardyrnar og viðkomandi einstaklingar eða fyrirtæki geta ekki tekið þær upp eins og hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni las upp úr bréfi hér áðan. Þetta þarf að skoða. Það má líka velta því fyrir sér hvort svona staða gæti komið upp í framhaldinu, þegar við horfum upp á að búið er að 3G-væða töluverðan hluta af landinu, hvort það geti verið að á ákveðnum svæðum komi sú staða upp, sambærileg því sem við þekkjum þarna, að hraðari nettenging komi síðan á seinni stigum og ekki sé hægt að taka þær tengingar inn vegna þess að fyrir sé hægvirkara samband.

Sett eru ákveðin markmið í áætluninni um hraða nettenginga, hvaða hraða eigi búið að vera að ná á ákveðnum árum, til að mynda að 70% lögheimila og vinnustaða eigi að eiga kost á 100 megabita tengingu árið 2014, og 99% árið 2022. Maður veltir því fyrir sér hvað ákvarðar þessar tölur og hver kostnaðurinn yrði að baki því ef þessu yrði flýtt eitthvað. Það væri fróðlegt að vita og við munum ef til vill skoða það í vinnslu nefndarinnar.

Í þingsályktunartillögunni er líka fróðlegur samanburður við nágrannaríki okkar mörg hvað snertir netsamband, til að mynda er gert ráð fyrir því í Finnlandi að árið 2015 verði allir íbúar, bæði í dreifbýli og þéttbýli, komnir með 100 megabita tengingu, en í dag er íbúum Finnlands einungis tryggð 1 megabita tenging við internetið óháð tækni. Þannig að þar eru gríðarlega metnaðarfullar áætlanir í gangi. Að sjálfsögðu eigum við Íslendingar að halda áfram að skipa okkur í fremstu röð þarna og leggja fram metnaðarfullar áætlanir. Það er öllum ljóst að þegar fyrirtæki eða einstaklingar velja sér búsetu er þetta einn af grundvallarþáttunum, það eru góð fjarskipti, góð nettenging. Það er alltaf að aukast allt sem unnið er í gegnum netið. Þetta er ekki síður mikilvægt en góðar vegasamgöngur.

Eins og ég kom inn á áðan er það mikið áhyggjuefni á ákveðnum svæðum, þessi markaðsbrestur í fjarskiptum. Ég vil taka undir með því sem fram kemur í þingsályktunartillögunni, það er mikilvægt að skilgreina vel þennan markaðsbrest eða þá staðla sem fyrirtækin þurfa að uppfylla til að hægt sé að fara inn á svæðið með hraðari nettengingar. Það er sláandi á mörgum svæðum hversu alvarlegt ástandið er og hve hægvirk þjónusta er til að mynda dýrari; þjónustunni við viðkomandi einstaklinga og fyrirtæki er mjög ábótavant, tekur langan tíma. Oft koma heilu dagarnir og heilu vikurnar þar sem nettengingarnar detta út, síðan búa menn við það að rétt við túnfótinn er kannski hraðvirkara netsamband af því að ímyndaðar línur eru á milli, eins og kom fram í bréfi sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson las áðan úr Hrútafirði. Það er hæg nettenging á Reykjum í Hrútafirði en síðan er háhraðatenging í Staðarskála og innan við 10 mínútna akstur þarna á milli. Þetta verðum við einfaldlega að skoða. Þessu verðum við að finna lausn á. Þetta er sambærilegt á fleiri stöðum á landinu.

Ég vil síðan taka undir það sem hefur komið fram hér í umræðunni um að innleidd verði eftir þörfum tilskipun ESB-varðandi opnun póstmarkaða. Noregur þarf til að mynda að innleiða þessa tilskipun en þar eru uppi gríðarlegar efasemdir um hana. Nú er það svo að norska ríkisstjórnin hefur sagt að hún ætli ekki að innleiða þessa pósttilskipun, hún henti ekki Noregi og ekki komi til greina að hún verði innleidd.

Raunar var það svo að á landsfundi Verkamannaflokksins í Noregi, sem er systurflokkur Samfylkingarinnar hér á Íslandi, var samþykkt með meiri hluta atkvæða að Norðmenn mundu ekki innleiða þessa tilskipun Evrópusambandsins. Það hefur verið gríðarlegur styrr um þessa tilskipun og mikill slagur í gangi. Við setjum það kannski í samhengi við það að andstaðan við EES-samninginn er mjög mikil í Noregi og menn eru farnir að velta því fyrir sér hvort Norðmenn þurfi yfir höfuð að taka svona hrátt við tilskipunum EES án þess að hafa nokkuð um það að segja. Þannig að þetta var gríðarlega stórt skref sem Norðmenn stigu þarna og ákváðu að þessi tilskipun yrði ekki innleidd.

Í byrjun vikunnar var rætt um stöðu EES-samningsins og skýrslu Noregs í því efni. Maður veltir því fyrir sér hvort ekki væri rétt við núverandi aðstæður að íslensk stjórnvöld færu í auknum mæli að leita eftir samstarfi við Norðmenn, ekki eingöngu varðandi endurskoðun á EES-samningnum heldur líka varðandi einstakar tilskipanir. Norðmenn hafa gríðarlega sterka stöðu. Þarna hafa þeir riðið á vaðið gagnvart tilskipun sem margir hafa áhyggjur af að muni einnig reynast þung í skauti fyrir okkur Íslendinga og muni hækka póstdreifingarkostnað og draga úr þjónustu. Maður veltir því fyrir sér hvort ekki sé rétt að íslensk stjórnvöld stígi nú skrefið og leiti eftir samstarfi við Norðmenn um að hafna þessari pósttilskipun. Ég kalla bara eftir því. Ég tel mjög mikilvægt að innan nefndarinnar verði farið mjög gaumgæfilega yfir það því að orðalagið er mjög loðið, „að innleidd verði eftir þörfum tilskipun ESB varðandi opnun póstmarkaða.“

Að öðru leyti vil ég geta þess að farið verður vel yfir þessa áætlun í nefndinni og hlakka ég mjög til þeirrar vinnu. Ég held að öllum sé ljóst — það hefur komið fram í umræðunni og ég tek undir með þeim sem það hafa sagt — að uppbygging fjarskipta og nettenginga á landinu skiptir öllu máli. Þetta er grundvallaratriði í allri byggðastefnu. Þetta er grundvallaratriði í allri atvinnuuppbyggingu. Það er mjög mikilvægt að við setjum okkur gríðarlega metnaðarfull markmið í þessum efnum og að við tryggjum jafnframt að þau markmið sem við setjum okkur nái fram að ganga.