140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um ríkisstjórnina. Fyrr í vikunni efndu þingmenn Samfylkingarinnar til mikillar sjálfshjálparveislu vegna afmælis ríkisstjórnarinnar og reyndu að sannfæra hver annan um að þetta væri nú allt saman ágætt. Ég tek ekki undir það en bendi þó á að eitt jákvætt hefur gerst og það er að það styttist í lífdögum ríkisstjórnarinnar. Ég held að það séu 448 dagar í mesta lagi í dag og hugsanlega verður það styttra. (Gripið fram í.)

En það var annað mál, hæstv. forseti, sem ég ætlaði að ræða um. Við Íslendingar erum nú samkvæmt ályktun Alþingis í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Aðstæður hafa sem kunnugt er breyst gríðarlega mikið á þeim tíma sem liðinn er frá því sótt var um aðild sumarið 2009.

Ég vildi nýta þetta tækifæri, hæstv. forseti, ekki til að fara efnislega í þessa umræðu vegna þess að ekki gefst kostur á því á tveimur mínútum, heldur til að beina því til hæstv. forseta og þá jafnframt hæstv. utanríkisráðherra hvort ekki sé hægt að efna til viðameiri, efnismeiri og ítarlegri umræðu um stöðuna í aðildarviðræðum okkar við Evrópusambandið einhvern tíma á næstunni í ljósi allra þeirra breytinga sem átt hafa sér stað bæði innan lands en þó ekki síður í Evrópu frá því farið var af stað. Þá væri hægt að taka almennilega, ítarlega umræðu, ekki í tveggja mínútna fyrirspurnum eða störfum þingsins, um stöðuna í þessum málum (Forseti hringir.) og fá þannig meiri dýpt í umræðuna en hefur verið á síðustu mánuðum.