140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:49]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Heildstæð atvinnustefna þarf að byggja á jafnræði atvinnugreina, jafnrétti, heilbrigðum viðskiptaháttum og grænni atvinnuuppbyggingu í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Um leið er mikilvægt að huga að samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs í alþjóðlegum samanburði. Fólk þarf að hafa tækifæri til að nýta hæfileika sína, þekkingu og metnað og að virkja vinnufúsar hendur með fjölbreyttum vinnumarkaðsúrræðum og menntun.

Við höfum síðustu þrjú ár staðið í harðri varnarbaráttu gegn atvinnuleysinu sem óhjákvæmilega knúði hér dyra eftir efnahagshrunið. Í því ljósi er ánægjulegt að okkur skuli þó hafa tekist að halda hlutfalli atvinnulausra innan við það hlutfall sem að meðaltali er í Evrópulöndum. Í sama ljósi er mikil bót að því að sjá stórbætta stöðu útflutningsgreina, gríðarlega verðmætaaukningu í sjávarútvegi, stórbætta afkomu ferðaþjónustunnar og vaxandi fjölda ferðamanna, að ekki sé minnst á vöxt skapandi greina á borð við kvikmyndagerð og tónlist.

Þá má einnig nefna fjölda hóflegra og sjálfbærra orkunýtingarverkefna um land allt sem munu nýtast til þess að knýja hér fjölbreytta starfsemi, allt frá risagróðurhúsi á Hellisheiði til gagnavera og kísilverksmiðju sunnan lands og norðan.

Sóknin er hafin og viðsnúningurinn sömuleiðis. Fram undan eru breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, en það mál er eitt af mikilvægustu efnahags-, atvinnu- og byggðamálum sem við stöndum frammi fyrir og úrslitaatriði varðandi það hvort okkur tekst yfirleitt að endurreisa þetta samfélag okkar á grundvelli sanngjarnra leikreglna og eðlilegra starfshátta. Á því máli (Forseti hringir.) veltur það hvort okkur tekst að efla byggðir landsins á ný og skapa þeim skilyrði til að bjarga sér sjálfar. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Sóknin er hafin og full ástæða til að horfa bjartsýn fram á veg.