140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

svar við fyrirspurn.

[15:58]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla alls ekki að lengja þennan fund eða koma neinu af stað til þess, en ég vil vekja athygli hæstv. forseta á svari sem útbýtt var fyrr á fundinum. Ég var að klára að lesa svarið og tel ástæðu til að biðja hæstv. forseta um að taka það til umræðu í forsætisnefnd þingsins. Það er svar hæstv. utanríkisráðherra við fyrirspurn hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um Evrópustofu. Svarið er með nokkrum ólíkindum að mínu mati. Það er í fimm liðum og ég sé fingraför hæstv. utanríkisráðherra á því svari af því að þar er um svo furðulegt orðalag að ræða að ég trúi því ekki að nokkur embættismaður hafi sett það á blað. Það hlýtur að koma frá hæstv. ráðherra sjálfum (GBS: Eitthvert skrýtið orðalag? Passar.) Ég hef nokkrar áhyggjur af því ef þetta er þróunin. Þetta er í annað skiptið sem hæstv. ráðherra kemur fram með sérstakt svar til sama hv. þingmanns. Mér finnst svarið að vissu leyti niðurlægjandi og gera grín að hv. þingmanni. Mér finnst það ekki við hæfi og ég tel að forsætisnefnd eigi að skoða málið.

Hér er orðalag sem ég hef ekki séð oft áður, (Forseti hringir.) reyndar einungis einu sinni áður í svari sama hæstv. ráðherra til sama hv. þingmanns.