140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

mengunarmælingar í Skutulsfirði.

449. mál
[17:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrir um það bil ári síðan kom upp hið svokallaða díoxínmál í Skutulsfirði við Ísafjarðardjúp þegar díoxín fannst í mjólk sem framleidd hafði verið í Skutulsfirði. Eftir það fóru hjólin heldur betur að rúlla. Niðurstaðan varð sú að ákveðið var að ekki mætti nýta fóður sem hefði orðið til á jörðunum við Skutulsfjörð, sömuleiðis, eftir að send hafði verið út tilkynning um lönd og álfur um þessa díoxínmengun sem þarna hafði mælst, urðu viðbrögð afurðastöðva þau, og ég tel að þau hafi ekki verið óeðlileg, að taka einfaldlega ekki á móti kjöti sem framleitt var á jörðum í Engidal við Skutulsfjörð. Þá voru góð ráð dýr. Bóndanum var sem sagt meinað að nýta sér hey og annað fóður sem hafði verið aflað á jörðunum. Hann gat ekki heldur losað sig við afurðirnar, a.m.k. ekki fyrir greiðslu. Þar með var búskapnum sjálfhætt, má segja. Bóndinn felldi fé sitt og var kominn í þessa erfiðu stöðu.

Nú hefur að vísu komið fram, og kom raunar fram í svari hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn minni um þetta mál fyrr á þessu ári, að niðurstöður beitartilraunar í Engidal í Skutulsfirði gera það að verkum að mat Matvælastofnunar er nú að þetta svæði henti aftur til fjárbúskapar og annars búfjárhalds. Síðan hefur líka komið í ljós, og kom fram í svari hæstv. velferðarráðherra við spurningum mínum, að mælingar sem gerðar voru á heilsufari fólks, annars vegar viðmiðunarhópa í Skutulsfirði og Ísafirði og hins vegar á höfuðborgarsvæðinu, leiða fram að ekki sé ástæða til að ætla að þessi díoxínmengun sem sannarlega var til staðar hafi haft skaðleg áhrif á heilsufar fólks.

Þá stendur eftir ein spurning til viðbótar. Hún lýtur að stöðunni varðandi mögulega mengun í jarðvegi í Skutulsfirði. Þess vegna hef ég leyft mér að leggja fram tvær fyrirspurnir til hæstv. umhverfisráðherra. Annars vegar: Hver er niðurstaða jarðvegsmælinga í nágrenni sorpbrennslustöðvarinnar Funa í Skutulsfirði og hefur komið fram hvort mengun í jarðvegi þar hafi verið yfir leyfilegum mörkum?

Í öðru lagi: Liggur fyrir að mengun sem þar hafi mælst hafi verið úr sorpbrennslustöðinni Funa, eða kann hún að hafa stafað af öðrum orsökum, eða er hægt að útiloka að svo sé?