140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Nú er það svo að hér er um að ræða ályktun frá utanríkismálanefnd Evrópuþingsins og þar sitja stjórnmálamenn kjörnir og ég hef almennt verið þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn verði að hafa rétt til þess og leyfi að hafa skoðanir á hinum ýmsu hlutum, hvort sem það varðar þá beint eða ekki, og það eru þessir menn að sjálfsögðu að gera eins og við leyfum okkur á Alþingi.

Hitt er svo að í ályktun nefndarinnar, sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vísar til, er að finna ábendingar og sjónarmið þar sem bæði íslensk stjórnvöld og við Íslendingar erum gagnrýnd en líka þar sem sérstaklega er bent á það sem vel hefur verið gert af Íslands hálfu á undanförnum árum, ekki síst í kjölfar efnahagshrunsins. Þar koma því sjónarmið í báðar áttir fram.

Ég vil þó segja og taka að því leyti undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að mér finnst að sumu leyti í þeim texta sem hér er vísað til sé um að ræða afskipti eða íblöndun í íslensk innanríkismál sem mér finnst óviðeigandi svo ekki sé meira sagt. (Gripið fram í: Óviðeigandi?) Óviðeigandi að gert sé með þeim hætti sem þar er og hv. þingmaður vísaði sérstaklega til og ég get verið ósammála ýmsu sem hér kemur fram þó að ég sé sammála öðru.

Hvernig eigum við að bregðast við? Á milli Alþingis Íslendinga og Evrópuþingsins er starfandi sérstök sameiginleg þingmannanefnd sem fundar reglulega tvisvar á ári. Næsti fundur hennar verður í byrjun apríl í Reykjavík og ég hugsa mér sem formaður þeirrar nefndar eða Íslandshluta þeirrar nefndar að taka þetta upp á þeim vettvangi. Mér finnst eðlilegt að það sé rætt á milli þingmanna með hvaða hætti menn eru að álykta um mál hver hjá öðrum.

Ég minni hins vegar á að ýmsar alþjóðlegar stofnanir senda okkur, t.d. OECD eins og þekkt er, ábendingar um það sem betur má fara í stjórnkerfi okkar og við tökum það til skoðunar (Gripið fram í.) og gerum eftir atvikum breytingar eftir því sem okkur þykir henta, en í þessu tilfelli (Forseti hringir.) get ég tekið undir með þingmanninum að margt í þessari ályktun er þess eðlis að það má og á að gera athugasemdir við það á réttum vettvangi.