140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

skráð trúfélög.

509. mál
[17:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég bíð nokkuð spennt eftir að heyra svar hæstv. ráðherra um sóknargjöldin því það liggur alveg ljóst fyrir samkvæmt áliti fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að ekki er ætlunin að auka útgjöld ráðuneytisins til þessara málefna. Þá liggur fyrir að menn verða að svara því hvaðan fjármagnið á þá að koma til nýrra lífsskoðunarfélaga sem verða skráð og eiga að njóta ákveðinnar hlutdeildar í framlögum ríkisins. Við þurfum að fá svar við þessu: Munu sóknargjöld sókna verða skert vegna þessa máls?

Síðan vil ég taka það fram varðandi kristnina, og ég segi það kannski í ljósi þeirrar umræðu sem við höfum tekið og munum örugglega taka á næstu vikum vegna þessa máls en ekki síður vegna stjórnarskrárinnar, að ég tel mikilvægt að við viðurkennum það og það sé ekkert feimnismál að við Íslendingar erum kristin þjóð. Þannig er það. Við getum deilt um hvort hér eigi að vera þjóðkirkja eða ekki og menn geta haft ýmsar skoðanir á því. Það sem ég vil hins vegar að komi skýrt fram varðandi þá umræðu sem við erum að fara í vegna hugsanlegra breytinga á stjórnarskránni, sem ég tel margar hverjar nauðsynlegar, aðrar varhugaverðar, og það má segja að þetta sé angi af þeim anda sem svífur kannski núna yfir vötnum að hvergi má tala um trú, hvað þá kristni, að ég vonast engu að síður til að kristnum gildum verði gerð skil í stjórnarskránni og við viðurkennum að við séum sú kristna þjóð sem við höfum verið í ríflega þúsund ár.