140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[15:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var undarleg yfirlýsing sem hv. formaður nefndarinnar kom með. Ég held að það sé alveg full ástæða til að endurskoða starf þessarar nefndar og hugsanlega hvort ekki þurfi hreinlega að kjósa í hana að nýju ef hún er óstarfhæf. Mér heyrðist hv. þingmaður lýsa því yfir að nefndin sé óstarfhæf.

Ef ekki er hægt að bera upp mál í nefndinni og ræða þau heldur eru þau tekin úr nefnd og ákveðin og leyst einhvers staðar á bak við tjöldin, sem hv. þingmaður lýsti greinilega hér fyrir okkur, þá er það vitanlega alvarlegt mál og getur ekki gengið. Þessar tillögur hefði að sjálfsögðu átt að bera upp í nefndinni og fá þær þá samþykktar þar í krafti meiri hlutans ef einhverjir þrír voru ekki með. Það hlýtur að vera það ferli sem þarf að viðhafa ef það er með þeim hætti.

Að öðru leyti ætla ég ekki í þessu andsvari að koma meira inn á það ferli, ég mun gera það síðar í ræðu hér í dag.