140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

matvæli.

488. mál
[16:24]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði áðan fagnaði hún því að þingið hefði burði og þrek til að klára það mál sem við ræðum nú, þ.e. að atvinnuveganefnd sem slík flytur hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, sem er á þann veg að ráðherra hefur heimild til að setja í reglugerð ákvæði um að matvælafyrirtæki geti merkt matvæli sem þau framleiða og dreifa með viðurkenndri áherslumerkingu sem gefur til kynna að matvælin séu í samræmi við stefnu stjórnvalda um manneldismarkmið. Hér erum við að tala um norræna hollustumerkið Skráargatið.

Eins og fram hefur komið hefur hv. þm. Siv Friðleifsdóttir flutt á tveimur þingum þingsályktunartillögu um að fela ráðherra að framkvæma þetta. Það er rétt sem hér kom fram að við vinnu nefndarinnar að þessari þingsályktunartillögu með framsögumanni, hv. þm. Þór Saari, var fljótlega ákveðið samkvæmt tillögu frá mér að taka skrefið til fulls og flýta framgangi tillögunnar með því að flytja þá lagabreytingartillögu sem hér er til umræðu. Á það féllust allir nefndarmenn eftir umræðu á nokkrum fundum og fagna ég því og vil þakka nefndarmönnum alveg sérstaklega fyrir ánægjulega og góða vinnu hvað þetta varðar. Þetta er einmitt það sem við höfum rætt, að þingnefndir eiga ekki að vera hræddar við að fara í mál með þeim hætti sem hér er gert í stað þess að senda það til framkvæmdarvaldsins. Þess vegna varð þetta frumvarp til.

Ég vil jafnframt nota tækifærið til að þakka þeim embættismönnum sem komu til nefndarinnar og eru skráðir á nefndarálitinu um þingsályktunartillöguna. Þeir eru Baldur P. Erlingsson og Kristinn Hugason frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Viktor S. Pálsson og Zulema Sullca Porta frá Matvælastofnun og Ragnheiður Héðinsdóttir frá Samtökum atvinnulífsins.

Þá bárust okkur líka umsagnir frá Neytendasamtökunum, Læknafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Alþýðusambandi Íslands, umboðsmanni barna og talsmanni neytenda, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, Hjartavernd, landlæknisembættinu og Hjartaheillum, landssamtökum hjartasjúklinga.

Þetta var ástæða þess að við fórum í gegnum þetta og starfsmenn viðkomandi stofnana sem komu fyrir nefndina hjálpuðu okkur líka við það að finna þennan farveg, sem er þessi grein í frumvarpinu um að á eftir 18. gr. a laganna komi ný grein sem verður 18. gr. b, um heimild ráðherra og að við undirbúning við setningu reglugerðar skuli ráðherra leita álits hjá landlæknisembættinu. Og þar með, eins og við sáum samstöðuna sem varð um þingsályktunartillöguna í síðustu viku, ef ég man rétt, vænti ég þess að sama samstaða verði um þá lagabreytingu sem hér er. Þá verðum við á þessu þingi búin að festa í lög að þetta skuli gert. Ég trúi því og treysti og hef engar efasemdir um að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra muni í beinu framhaldi af þessu vinna það fljótt og vel að setja reglugerð sem hér er nefnd, því að það hefur komið fram að Mjólkursamsalan sé þegar komin með tvær vörutegundir á markaðinn sem merktar eru með norræna hollustumerkinu Skráargatinu. Vonandi fylgja fleiri á eftir.

Virðulegi forseti. Ekki þarf að orðlengja mikið meira um þetta annað en að fagna frumvarpinu, fagna hinni víðtæku sátt um málið. Ég vil líka nota tækifærið og benda á þingsályktunartillögu og þá greinargerð sem kom frá Matvælastofnun sem var ákaflega vel unnið plagg, mjög vel unnið plagg sem umræddir starfsmenn Matvælastofnunar fylgdu eftir á fundi hjá okkur og sett er fram í nefndarálitinu um þingsályktunartillöguna sem þegar hefur verið samþykkt.

Virðulegi forseti. Eins og áður hefur komið fram er norræna hollustumerkið samstarfsverkefni nokkurra Norðurlanda og það er í sífelldri þróun. Meðal annars var rætt í nefndinni hvernig ætti að koma því inn í bakarí og það var rætt hjá okkur vegna þess að á Íslandi eru greinilega fleiri handverksbakarí en í nágrannalöndum okkar. Umræðan var um það hvernig þau gætu merkt sína vöru og það kom fram, ef ég man rétt, að við mundum þá fylgjast með öðrum Norðurlandaþjóðum við að þróa þá vinnu. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt, það er nauðsynlegt að okkar handverksbakarar og bakarí geti sýnt okkur hvar þeir geta sett þetta merki og á hvaða vörur, en ég ætla ekki að orðlengja um þá umræðu sem fór fram í nefndinni hvað það varðar.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég enn á ný þakka hv. þingmönnum í atvinnuveganefnd svo og starfsmönnum ráðuneyta og stofnana sem komu á fundi fyrir þeirra vinnu, og óska Íslendingum til hamingju með það við skulum vera að samþykkja þetta mál, væntanlega á morgun.