140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans um afföll íbúðarlána og kostnað við niðurfærslu lána, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt að taka það fram í upphafi að það er að ósk Framsóknarflokksins sem þessi umræða er á þingi núna.

Frú forseti. Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta þegar hæstv. forsætisráðherra kemur í ræðustól fimm árum eftir að hún settist í ríkisstjórn Íslands, þremur árum eftir að hún tók við sem forsætisráðherra og tjáir okkur það að skuldamál heimilanna séu eitt af stóru málum ríkisstjórnarinnar. Þetta er mjög alvarleg yfirlýsing vegna þess að hæstv. forsætisráðherra og starfandi ríkisstjórn hefur svo sannarlega ekki slegið skjaldborg um heimilin. Ríkisstjórnin sló skjaldborg um fjármagnseigendur. Það hefur margsýnt sig. Ríkisstjórnin hefur fengið á sig tvo dóma Hæstaréttar. Í bæði skiptin syrgðu ráðherrarnir þann dóm vegna þess að ekki væri til svigrúm.

Í síðustu viku var ríkisstjórnin dæmd af verkum sínum í gengislánadómi hinum síðari og þá ríkti engin kátína á ríkisstjórnarheimilinu. Þetta er einkennileg vinnubrögð og viðbrögð hjá ríkisstjórn sem kennir sig við velferð.

Hér er verið að guma af því að verkefni ríkisstjórnarinnar á liðnum þremur árum hafi leitt til þess að búið sé að afskrifa tæpa 150 milljarða. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fór vel yfir það í ræðu sinni að það er ekki vegna verka og aðgerða ríkisstjórnarinnar sem þessi upphæð er svo há, það er vegna þess að Hæstiréttur Íslands hefur komist að því að gengistryggðu lánin voru ólögleg og þess vegna þurfti að færa niður lánin.

Hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra fór með afar skrýtna hagfræði í þessum ræðustól áðan þegar hann sagði að hefði dómur Hæstaréttar ekki komið til hefði 110%-leið ríkisstjórnarinnar gagnast því fólki sem var með þau lán. Heyr á endemi, frú forseti. Það vita allir að þær 2.500 milljónir sem búið er að leggja í umboðsmann skuldara skila ekki þeim afköstum sem til var vænst vegna þess að þar er unnið á hraða snigilsins. Það er ekki hægt að leysa vandamál heimilanna með sértækum aðgerðum.

Ég vil vísa í þegar Framsóknarflokkurinn fór í kosningabaráttu árið 2009 og við framsóknarmenn lögðum til 20% almenna niðurfellingu á skuldum heimila. Núna, þremur árum seinna, eru allir stjórnmálaflokkar á þingi að verða sammála um þá leið. Við framsóknarmenn vorum rakkaðir niður fyrir þessa leið á sínum tíma og allt var gert til þess af spunameisturum vinstri flokkanna að gera okkur ótrúverðug. Hvað hefur ekki komið á daginn? Þetta er eina leiðin sem átti að fara og ef þessi leið hefði verið farin og hæstv. forsætisráðherra hefði staðið við þau loforð sem Framsóknarflokknum voru gefin þegar minnihlutastjórnin var varin falli þá værum við ekki í þeirri stöðu sem þjóð sem við erum í í dag. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Þá væri farið að birta til í hugum landsmanna, sérstaklega vegna þess að þá væri hægt að skapa hér meiri hagvöxt með aukinni neyslu.

Þetta er sú staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Andstæðingar okkar sögðu í kosningabaráttunni að þeir sem skulduðu mest fengju mestar afskriftir. Hvað hefur ekki komi á daginn með aðgerðum ríkisstjórnarinnar þau þrjú ár sem hún hefur starfað? Þeir sem skulduðu mest hafa fengið mestu afskriftirnar. Meðaljóninn situr eftir. Okkar tillögur gengu fyrst og fremst út á að taka til þessa miðjulags í samfélaginu sem þurfti einungis 20% niðurfellingu til að geta haldið sínu striki og farið að gefa í.

Frú forseti. Það eru mörg mál enn sem vert væri að ræða undir þessari umræðu. Tíminn er svo takmarkaður. Ég er með mörg atriði hérna á blaðinu sem ég ætlaði að koma að, (Forseti hringir.) en ég lýsi því yfir að það er einkennileg hagfræði sem hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra heldur fram (Forseti hringir.) að nú sé svigrúm hjá bönkunum þegar ríkisstjórnin hefur verið dæmd í Hæstarétti.