140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

hugsanleg þátttaka þingmanna í búsáhaldabyltingunni.

[15:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þó að ég teljist sjálfsagt ylfingur í þingstörfum, eftir að hafa hlustað á hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra áðan, bið ég ráðherra að svara mér skilmerkilega.

Í fjölmiðlum er mikið rætt um skýrslu sem fyrrverandi yfirlögregluþjónn, Geir Jón Þórisson, er að skrifa. Hann er að skrifa skýrslu um mótmælin, að mér skilst, fyrir lögreglustjórann í Reykjavík. Fram hefur komið, í viðtölum við lögregluþjóninn, að meðal þess sem fjallað sé um þar sé mögulegur þáttur þingmanna í þeim mótmælum.

Ég verð að segja að ég undrast svolítið viðbrögðin við þessum orðum þar sem í sjálfu sér er ekkert nýtt á ferð. Fjallað hefur verið um mögulegan þátt þingmanna í þessum mótmælum í fjölmiðlum áður. Formaður Sambands lögreglumanna, Snorri Magnússon, hefur skrifað um þetta grein eða verið í viðtali og þá hefur fyrrverandi lögregluþjónn, Gylfi Guðjónsson, skrifað grein um sama mál. Ég held að við hljótum að vilja fá þetta mál út úr myndinni — hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra notar það orðalag býsna oft þegar rætt er um Evrópusambandið og ýmislegt annað, að fá bara málið út úr myndinni.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé þá ekki sammála þeirri þingsályktunartillögu sem undirritaður er 1. flutningsmaður að í þinginu, um að þetta mál verði rannsakað. Það er einhver misskilningur í gangi varðandi þau orð sem lögreglumaðurinn Geir Jón hefur haft í frammi, um að einhver rannsókn sé í gangi, en ég velti því upp við ráðherra hvort ekki sé rétt að rannsaka bara hvort þingmenn hafi tekið einhvern þátt, og þá með hvaða hætti, í þessum athöfnum, þessum mótmælum, og hvort eitthvað undarlegt sé þar á ferð. Það er vitanlega óþolandi fyrir þingið sem slíkt ef það er þannig að almenningur eða lögreglan hefur grun um að þannig hafi verið staðið að málum. Þeirri óvissu (Forseti hringir.) og ætluðum rógburði þarf að sjálfsögðu að eyða.