140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:00]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu um afturköllun ákæru á hendur fyrrverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde. Þetta er sennilega skrýtnasta mál sem komið hefur inn í þingið í lýðveldissögunni og í raun ótrúlegt að það skuli vera á dagskrá þingsins.

Mig langar að byrja á því að hefja mál mitt á því að nefna að ég tala hér fyrir algjörlega tómum þingsal, og hér er enginn inni nema sá er hér stendur, hæstv. forseti og aðstoðarmaður forseta þingsins. Það er kannski við hæfi enda er þetta mál í raun tóm tunna og eingöngu einhvers konar upphlaup af hálfu málshefjanda og Sjálfstæðisflokksins.

Mig langar að fjalla að mestu leyti, frú forseti, um það sem stendur í þeim nefndarálitum sem fram hafa komið. Í nefndaráliti frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Landsdómur hefur þegar kveðið upp einn dóm og úrskurðað í þremur kærumálum sem varða undirbúning og grundvöll ákæru á hendur fyrrverandi forsætisráðherra, þar á meðal kröfu verjanda um frávísun einstakra ákæruliða og frávísun málsins í heild. Landsdómur hefur til dæmis ákveðið að saksóknari Alþingis hafi verið löglega kjörinn og að það hafi verið lögmætt að þingið byggði ályktun um málshöfðun á skýrslu rannsóknarnefndar þingsins. Þá hefur dómurinn skorið úr um það að þær refsiheimildir sem ákært er fyrir séu nægilega skýrar til að ákærði geti haldið uppi vörnum. Einnig eru reglur landsdómslaga og sakamálalaga um meðferð málsins taldar fyrirsjáanlegar og ekki standa því í vegi að ákærði fái notið réttlátrar málsmeðferðar eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir.“

Svo segir áfram, með leyfi frú forseta:

„Í fræðaskrifum um stjórnskipunarrétt (m.a. Bjarni Benediktsson 1940, Ólafur Jóhannesson 1960 og 1978, Gunnar G. Schram 1999 og Andri Árnason 2009) kemur fram að þegar Alþingi hefur samþykkt málshöfðun og kosið sækjanda og nefnd fimm þingmanna til aðstoðar eins og síðar varð sé málið komið úr höndum þingsins og að hvorki hið sama þing né nýtt þing að afloknum kosningum nýskipað geti eftir það afturkallað málsókn.

Í greinargerð með frumvarpi til laga um landsdóm (3. mál 83. löggjafarþings) er gerð grein fyrir nýmæli um kosningu fimm manna saksóknarnefndar sem sé saksóknara allt í senn styrkur og aðhald. Þá segir: „En eins og nú er, hefur Alþingi engin skipti af málinu, eftir að það hefur kjörið sóknara. Með kjöri saksóknarnefndar fær Alþingi hins vegar sérstaka fulltrúa til að fylgjast með saksókninni og ýta á eftir henni, ef þörf gerist.““

Frú forseti. Þetta er mikilvægt vegna þess að hér er einfaldlega verið að koma í veg fyrir það, eins og oft hefur verið bent á, að endalaust sé hægt að hringla hér með málshöfðanir á hendur ráðherrum fyrir landsdómi. Það sé hægt að afturkalla þær, það sé hægt að kalla þær fram að nýju, það sé hægt að afturkalla þær og setja þær fram að nýju. Slíkt fyrirkomulag með landsdóm og ráðherraábyrgð er náttúrlega ekki boðlegt neinu ríki sem vill kalla sig réttarríki.

Frú forseti. Í nefndarálitinu segir einnig, með leyfi forseta:

„Fyrir nefndinni kom einnig fram sjónarmið varðandi ákvæði 29. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. að auk samþykkis Alþingis þurfi atbeina forseta og tillögu ráðherra dómsmála til þess að fella niður saksókn fyrir landsdómi. Þá sé niðurfelling saksóknar sérverkefni handhafa framkvæmdarvalds sem aðrir handhafar ríkisvalds mega ekki seilast í þó að samþykki þingsins sé áskilið í tilviki ráðherraábyrgðar. Einnig var bent á að nýtt Alþingi geti ekki afturkallað landsdómsmál, ella gætu þingkosningar hreinlega snúist um sekt eða sýknu ráðherra.“

Þetta er í samræmi við það sem ég sagði rétt áðan að slíkt mundi kalla á fyrirkomulag sem yrði aldeilis ómögulegt að búa við og í raun fráleitt að halda því fram af málshefjanda að þetta sé það fyrirkomulag sem menn hafi stefnt að á sínum tíma.

Frú forseti. Í kaflanum um efnisleg skilyrði afturköllunar segir meðal annars í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Nefndin fjallaði um það hvort fyrir hendi væru efnislegar ástæður sem ættu að leiða til þess að málið yrði fellt niður eins og tillagan gerir ráð fyrir. Leitaði nefndin meðal annars eftir afstöðu saksóknara Alþingis og aðstoðarsaksóknara um það hvort komnar væru fram upplýsingar eða gögn sem breyttu málinu í þá veru. Af hálfu saksóknara og aðstoðarsaksóknara kom fram að ekkert hefði breyst efnislegt í málinu eða nokkuð það komið fram við rannsókn málsins sem leiddi til þess að saksóknari leitaði til Alþingis með beiðni um samþykkt nýrrar þingsályktunartillögu um breytingu á ákæru eða afturköllun hennar.“

Í álitinu segir að auki, frú forseti:

„Meiri hlutinn telur að til þess að unnt sé að afturkalla ákæru fyrir landsdómi þurfi að liggja fyrir efnislegar ástæður eða efnisleg sjónarmið sem réttlæta slíkt. Telur meiri hlutinn engar slíkar fram komnar og jafnframt að ekkert það sé fram komið sem leiða ætti til þess að saksókn yrði felld niður. Þá telur meiri hlutinn þá málsmeðferðarreglu gilda við afturköllun ákæru á hendur ráðherra að tillaga um slíkt eigi að berast frá saksóknara Alþingis að höfðu samráði við saksóknarnefnd, sbr. ákvæði 16. gr. laga um landsdóm. Slík tillaga hefur ekki borist.“

Frú forseti. Fyrsti minni hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem hv. þm. Magnús Norðdahl skipar, fjallar einnig um það í áliti sínu að þessi afturköllun á ákæru sé ótæk og vísar meðal annars til þessara raka, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi telur 1. minni hluti að þingsályktunartillagan hafi aldrei uppfyllt skilyrði þess að vera tekin á dagskrá Alþingis, annars vegar vegna formgalla og hins vegar þar sem Alþingi hafi ekki að eigin frumkvæði heimild til þess að afturkalla ákæru sem þegar hefur verið þingfest fyrir landsdómi og að meðferð slíkrar tillögu á Alþingi og samþykkt hennar feli í sér brot gegn 14. gr. stjórnarskrárinnar, viðurkenndum túlkunum á henni og ákvæðum laga um landsdóm.“

Í sama áliti segir einnig, með leyfi forseta:

„Lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008, geyma ekki ákvæði um að ákæra verði afturkölluð og mál fellt niður þannig að fyrri ákvörðun um að mál skuli höfðað verði fyrst felld úr gildi og að svo búnu saksóknara falið að afturkalla ákæru. Tillagan felur því í sér einstakt og áður óþekkt verklag. […]

Þar sem efni tillögunnar er óskýrt og þingsköp Alþingis geyma ekki heimild til þess að Alþingi taki ákvörðun með þeim hætti sem lagt er til telur 1. minni hluti að þingsályktunartillagan hafi ekki í upphafi verið þingtæk og því beri að vísa henni frá jafnvel þó að hún hafi fengið umfjöllun í nefnd milli umræðna.“

Frú forseti. Hv. þm. Magnús Norðdahl vísar svo í greinar fræðimanna sem allar eru á einn veg; eftir að Alþingi hafi samþykkt ályktun um málshöfðun og kosið saksóknara, sé því ekki heimilt að skipta sér lengur af málinu. Hér er um að ræða fræðimenn sem þykja kanónur í íslenskri lögfræði, dr. Bjarna Benediktsson, Ólaf Jóhannesson, dr. Gunnar G. Schram, Andra Árnason hæstaréttarlögmann og Sigurð Líndal, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands. Allir þessir aðilar hafa fjallað um þetta mál með einum eða öðrum hætti og telja algjörlega skýrt að Alþingi sé ekki heimilt að skipta sér af slíkri ákæru eftir að hún hefur verið tekin í dóm eins og sagt er, eins og ákæran gagnvart fyrrverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde hefur verið.

Sambærilegar og skýrar heimildir voru ekki í hendi saksóknara, eins og segir meðal annars í álitinu, með leyfi forseta: „fyrr en með setningu laga nr. 88/2008 og telur prófessor Róbert Spanó að við gildistöku þeirra hafi Alþingi fengið heimild til þess að eiga frumkvæði að afturköllun málshöfðunar á hendur ráðherra í samræmi við 2. mgr. 153. gr. og b-lið 170. gr.“

Þetta álit Róberts Spanós birtist sem blaðagrein í Fréttablaðinu og þau rök sem flutningsmenn málsins og stuðningsmenn hafa notað styðjast meðal annars ekki við ritrýndar fræðigreinar í lögfræði heldur blaðagreinar sem taldar eru upp í fylgiskjölum með nefndaráliti frá 2. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þ.e. frá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal. Þær greinar sem vísað er til þar eru meðal annars grein eftir Róbert Spanó, grein eftir Stefán Má Stefánsson, grein eftir Ragnar H. Hall og grein eftir Valtý Sigurðsson. Þetta eru ekki ritrýndar fræðigreinar, þetta eru skoðanir sem settar eru fram í blaðagrein og hafa ekkert fræðilegt gildi og eru ekki innlegg í þetta mál.

Það má heldur ekki gleyma því að einhverjir af þessum fjórum mönnum hafa einnig þegið greiðslur fyrir frá málsvörn Geirs H. Haardes. Róbert Spanó er ekki einn þeirra, svo mikið veit ég, en einhver eða einhverjir hinna þriggja hafa þegið greiðslur. Það þarf að hafa í huga líka þegar fjallað er um svona mál að menn eru keyptir til þess að hafa skoðanir á þeim. Þetta mál er hið ómögulegasta og hið ömurlegasta sem ég hef nokkurn tíma séð hér og toppar meira að segja Icesave-málið sem var þó keyrt hér inn í þrígang á sínum tíma og ég átti mikla aðkomu að.

Ég hef aldrei séð önnur eins óheilindi, óheiðarleika og hræsni í málatilbúnaði um nokkurt mál og þetta einstaka mál. Það tekur út yfir allan þjófabálk þegar formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, vísar ítrekað í eitthvað sem hann kallar grundvallarmannréttindi sakbornings. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei nokkurn tíma svo mér sé kunnugt um ályktað um mannréttindamál í nokkru einasta máli og ég skora á þá að sýna mér hvar og hvenær flokkurinn hefur ályktað eitthvað einhvers staðar um grundvallarmannréttindi. Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem hefur staðið fyrir því að styðja mestu, verstu og ógeðslegustu stríð frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar og barðist til dæmis eindregið fyrir því að Víetnamstríðið héldi áfram með linnulitlum stuðningi sínum við Bandaríkjamenn. Það er ömurlegt að hlusta á menn í þessum flokki koma hér upp og tæpa á einhverju sem þeir kalla grundvallarmannréttindi. Hvar eru ályktanir flokksins um grundvallarmannréttindi sem þeir hafa svo mikinn áhuga á? Hafa þeir til dæmis ályktað gegn dauðarefsingu í Bandaríkjunum? Hafa þeir ályktað einhvers staðar gegn mansali sem broti á mannréttindum? Hafa þeir ályktað um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu sem dæmdi að íslenska kvótakerfið væri brot á mannréttindum? Hvar eru þær ályktanir og hvar er sú ást Sjálfstæðisflokksins? Er þetta nokkuð annað en hentistefna og hræsni? Ég held því fram að slíkt sé. Eitt af því sem gerir þetta mál svo ógeðfellt er að menn koma hér upp og vísa í alls konar gögn sem eru einskis virði og alls konar réttindi sem þeir hafa annars engan áhuga á, einfaldlega til að koma máli sínu á framfæri.

Þetta mál er ömurlegt og það segir sitt um Alþingi að það skuli vera hér á dagskrá, um þau grundvallarmistök sem Alþingi gerði á sínum tíma þegar það fjallaði um þingsályktunartillögur þingmannanefndarinnar þar sem ákveðið var að ákæra fjóra fyrrverandi ráðherra en það gerðist ekki vegna pólitískrar samstöðu stjórnmálaflokka og vegna þess að menn voru uppteknir við það að koma vinum sínum og félögum í skjól. Niðurstaðan þann dag, sem ég hef ætíð kallað svartasta dag þingsins, var sú að fyrrverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde situr einn eftir fyrir landsdómi. Þá niðurstöðu mun Alþingi þurfa að lifa með það sem eftir er. Það er ömurlegasta niðurstaða í nokkru máli sem Alþingi hefur knúið fram fyrir utan ef niðurstaðan hér verði sú að samþykkt verði að kalla ákæruna aftur. Þá hefur Alþingi lýst því yfir og þingmenn á Alþingi og stjórnmálastéttin á Íslandi að enginn, ekki einn einasti maður, beri pólitíska ábyrgð eða lagalega ábyrgð á því hruni sem hér varð. Ísland mun stimpla sig út úr samfélagi þjóðanna sem eðlilegt, opið réttarríki og lýðræðisríki og skipa sér í stöðu með þeim þjóðum sem við teljum okkur standa langt, langt ofan við hvað þessi mál varðar. Það er ömurlegt að þurfa ef til vill að vera hluti af slíkri þjóð en það hlýtur að sjálfsögðu að verða gerð krafa um það í framhaldinu að almenningur fái að segja álit sitt á því umboði sem það veitti þingmönnum vorið 2009. Það gengur ekki að Alþingi Íslendinga sé skipað með þeim hætti að það grípi inn í dómsmál og hringli með dómsvaldið fram og til baka eftir hentistefnu og kröfum einstakra þingmanna og þingflokka þegar allt bendir til þess að málið sé nákvæmlega í þeim farvegi sem lög landsins gera ráð fyrir.

Ég vona innilega að sú frávísunartillaga sem gerð er hér við málið nái fram að ganga og menn sjái að sér og láti þetta mál ekki koma til atkvæða, enda er það óþarfi. Það hefur fengið þá efnislegu umfjöllun sem krafist var og sú efnislega niðurstaða er einfaldlega sú að ekkert í málinu gefi tilefni til að draga það til baka, og þar með ber einfaldlega að vísa málinu frá.