140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:38]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er afar athyglisvert sjónarmið hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni að það að fella niður málsóknina gegn Geir Haarde eða ógilda ákvörðun Alþingis á sínum tíma sé þáttur í málsvörn okkar í Icesave-málinu. (Gripið fram í.) Það er alveg nýr flötur á tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins að við séum þar með að auka frægð okkar í heiminum og draga úr þeim mótrökum sem kynnu að vera í Icesave-málinu.

Það var reyndar ekki það sem ég spurði hann um. Icesave blandaðist þá og því aðeins í þetta að þingmaðurinn tiltók það sérstaklega að þar væri breyting, hann tiltók tvær breytingar frá því sem áður hefði verið, það var Icesave og síðan var það að nokkrir þingmenn hefðu skipt um skoðun, sem hv. þm. og tillögumaður Bjarni Benediktsson sagði að skiptu mestu.

Spurning mín var þessi: Hvað ef nokkrir þingmenn skipta aftur um skoðun, er það þá kurteisi hv. þm. Illuga Gunnarssonar og einhver „morale“ í þinginu sem á að ráða? (Forseti hringir.) Hvar eru mannréttindi hins ákærða, hvar eru þau?