140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[21:21]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er algjörlega ljóst af þeim nefndarálitum sem liggja fyrir að um þetta eru menn í nefndinni ekki sammála. Það er meiri hluti sem segir að svo sé ekki. Hér kemur minnihlutaálit frá tveimur þingmönnum sem eru annarrar skoðunar og þriðji þingmaðurinn, hv. þm. Magnús Norðdahl, gefur sérálit en tekur undir með meiri hlutanum hvað þetta varðar. Nefndin sem í eru níu þingmenn er ekki einhuga og það þýðir í mínum huga að ekki sé hægt að tala um vilja Alþingis. Vilji Alþingis kemur til og sést í atkvæðagreiðslum. Þar kemur vilji Alþingis fram. Hann kemur ekki fram með meirihluta- eða minnihlutaáliti nefndarmanna, hann kemur fram í atkvæðagreiðslu Alþingis. Í mínum huga hefur vilji Alþingis ekki komið í ljós. (MÁ: … 2010.) Mér finnst að það sé skylda okkar að sýna í atkvæðagreiðslu vilja Alþingis í þessu máli, hvort þeir 63 þingmenn sem hér sitja kjósi að draga til baka ákæru á hendur Geir H. Haarde eða hvort þeir kjósi að láta hana standa.