140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[21:24]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki borið brigður á að umræðan í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi verið á einn eða annan hátt. Ég sat þar ekki, ég veit það ekki. Ég hef heyrt í þeim þingmönnum sem þar sitja, hvort heldur eru í meiri eða minni hluta, og menn komust ekki að sameiginlegri niðurstöðu. Menn eru ekki einróma. En við munum á morgun í atkvæðagreiðslu greiða aftur atkvæði um það hvort vísa eigi málinu frá. Það var gert hér 20. janúar og þá á þeirri forsendu að málið ætti að fá þinglega meðferð. Það hefur fengið þinglega meðferð. Niðurstaðan er sú hjá meiri hlutanum að leggja til að vísa málinu frá. Um það greiðum við atkvæði á morgun. Verði sú tillaga felld munum við greiða atkvæði um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde og vilji Alþingis kemur í ljós, hvort heldur er í hinni fyrri eða hinni seinni. (ÁI: Það er rétt. Sammála.)