140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[22:08]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra nefnir í fyrsta lagi breytta afstöðu sem hafi meðal annars komið fram í afstöðu þingmanna í mínum þingflokki. Það er rétt en þá bendi ég hæstv. utanríkisráðherra á að það hafa líka orðið mannabreytingar í þingflokki hæstv. utanríkisráðherra sem kunna að hafa öndverð áhrif hvað þetta mál snertir. Ég spyr: Á þá sem sagt að taka mál af þessum toga til skoðunar af þeirri ástæðu einni að það kunni að vera einhver breytt samsetning í einum eða fleiri þingflokkum eða að einhverjir hafi skipt um skoðun og lýst því? Eru það sérstök rök til að taka upp mál af þessum toga og eiga þá jafnvel á hættu að það sé gert með reglulegu millibili? Finnst mönnum það skynsamleg stjórnsýsla eða réttarfar?

Í öðru lagi talar hæstv. ráðherra um að vísað hafi verið frá tveimur ákæruliðum. Það er rétt en landsdómurinn kemst sjálfur að þeirri niðurstöðu að fjórir ákæruliðir skuli standa og það hefur komið fram í máli fulltrúa í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að fyrir nefndinni hafi komið fram þau viðhorf, m.a. frá saksóknara, að þau ákæruatriði sem frá var vísað hafi verið til fyllingar hinum ákæruatriðunum.

Það er niðurstaða meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að þrátt fyrir þetta hafi ekki orðið þær efnisbreytingar að það sé ástæða til að falla frá málsókn. Ég tel að þau rök sem nefndin færir fram fyrir því séu fullgóð og fæ ekki betur séð en að nefndin hafi þar með tekið afstöðu til þessarar spurningar. Þá er spurningin: Geta menn fellt sig við þá niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar, enda hefur hún fjallað um málið efnislega, eða ekki? Ég er sammála niðurstöðu nefndarinnar hvað þetta snertir.