140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[22:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir góða ræðu. Hv. þingmaður vísaði til þess að sakborningur þurfi að búa við þá óvissu sem fylgir tveggja vikna réttarhöldum. Er það ekki rétt sem ég hef skilið af umfjöllun í nefndinni, að verði ákæran afturkölluð hafi Alþingi þriggja mánaða frest til að hætta við þá afturköllun og að sakborningurinn þurfi að búa við þá óvissu? (Gripið fram í.) Ef maður fellst á að þing geti skipt um skoðun og ef það er forsenda í málinu, getur þetta þing þá skipt aftur um skoðun í málinu?

Í öðru lagi vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji að ástæða sé til að hafa áhyggjur af því, með þá færu lögmenn sem sakborningurinn hefur, sem betur fer, og með þá dómara Hæstaréttar og annað grandvart fólk sem Alþingi hefur skipað í landsdóminn í tíð Geirs Hilmars Haardes, að það fólk gæti ekki vel að réttindum sakborningsins og hann njóti ekki þeirrar meginreglu í íslensku réttarríki að vera saklaus nema sekt hans verði sönnuð.