140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

verðtryggð lán Landsbankans.

[10:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Í árshlutauppgjöri Landsbankans kemur fram að verðtryggingarjöfnuður bankans sé 111.582 milljónir sem þýðir að bankinn á verðtryggðar eignir umfram óverðtryggðar sem nemur tæpum 112 milljörðum kr. Þetta þýðir að Landsbankinn hefur talsverðan hag af því að verðlag hækki og verðbólga aukist. Þetta misræmi hefur aukist mjög hratt og mjög mikið frá stofnun bankans.

Í Hagvísum Seðlabankans frá í febrúar kemur svo fram að lægstu verðtryggðu vextir á markaðnum eru hjá Landsbankanum sem á sama tíma er með frekar háa óverðtryggða vexti, er í samkeppni við annað ríkisfyrirtæki, Íbúðalánasjóð, og virðist vera, samkvæmt þessu, að reyna að auka enn á verðtryggðar eignir umfram óverðtryggðar og hagnast þar af leiðandi enn þá meira á verðbólgu. Er það stefna Landsbankans að hagnast sérstaklega á verðbólgunni og ef svo er, hvernig samræmist það stefnu stjórnvalda, um að draga úr vægi verðtryggingar, að ríkisbankinn sé á sama tíma að auka vægi verðtryggingar á efnahagsreikningi sínum? Ef þetta er ekki í samræmi við stefnu eigenda bankans telur þá hæstv. forsætisráðherra að gera eigi einhverjar athugasemdir við þetta, bregðast við þessu á einhvern hátt? Það er alla vega ekki til þess fallið að auka trú manna á að einhver alvara sé á bak við yfirlýsta stefnu, eða það sem ríkisstjórnin og hæstv. forsætisráðherra hafa að minnsta kosti gefið í skyn, að þau hafi vilja til að draga úr vægi verðtryggingar, þegar ríkisbankinn Landsbankinn er að gera einmitt þveröfugt.