140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

staða ættleiðingarmála.

[10:50]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svör hans og er mjög ánægð að heyra að málið sé í góðri og eðlilegri vinnslu innan ráðuneytisins. Ég legg mikla áherslu á að þar verði vel haldið á málum. Ég veit reyndar að formaður nefndarinnar mun gera það en mér finnst skipta afar miklu máli að við höldum mjög vel á þessum málum.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvaða álit hann hefur á þeim tillögum sem fram koma í áfangaskýrslu um hugsanlega breytingu á stjórnsýslu þessara mála þar sem einhvers konar fjölskyldustofnun eða stjórnsýslu barna- og fjölskyldumála verði komið fyrir á einum stað. Þá langar mig til að vitna til breytinga á því frumvarpi sem fyrir liggur um barnalög þar sem verið er að breyta áherslunni, þ.e. að það séu ekki bara lögfræðingar sem koma þar að málum heldur líka fagaðilar sem hafa sérstaka þekkingu á málefnum barna.