140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

tillögur til lausnar skuldavanda heimilanna.

[11:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Það sem við erum að gera núna er einmitt að auðvelda aðkomu allra að þessum málum, með því að útreikningar á öllum tillögum sem hafa komið upp liggi fyrir. Það erum við að reyna að gera. Af því að vísað var til skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans þá tel ég ekki að með henni hafi nokkru verið ýtt út af borðinu. Í henni var metið hvað ákveðnar tillögur og leiðir sem hafa verið uppi á borðinu mundu kosta og því miður voru margar þær leiðir og tillögur sem Hagsmunasamtök heimilanna lögðu fram mjög kostnaðarsamar, ekki síst fyrir ríkið. Þær hljóðuðu upp á þriðja hundrað milljarða kr. og þar af voru um 140 milljarðar beint á Íbúðalánasjóð og þar með skattgreiðendur. Þetta þarf allt að liggja fyrir og menn verða svo að meta það. Mér finnst að menn eigi að ganga að þessu borði þannig að meta allar tillögur raunsætt, og mér finnst að það eigi að vera skilyrði að hver og einn sem kemur að þessu borði, vill hafa þar áhrif og koma tillögum sínum og hugmyndum á framfæri, geri grein fyrir því hvernig eigi að standa straum af kostnaði við þær. (Forseti hringir.) Ég held að það sé lykilatriði. Ef við förum að borðinu með því hugarfari er ég alveg viss um að við munum ná sátt í þessu máli.