140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[14:24]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Raunar gengur þessi tillaga alls ekkert út á fyrirkomulag fiskveiðistjórnarinnar heldur það eitt að undirbúin verði þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem lagðar verði fram ákveðnar grundvallarspurningar og þannig fenginn fram þjóðarvilji. Ég get hins vegar alveg rætt það sjónarmið sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni, þ.e. spurninguna um það hvert auðlindagjaldið eigi að renna. Ég tel að auðlindagjaldið eigi að renna til nýsköpunar og þróunarverkefna og til eflingar atvinnugreinarinnar og/eða til annarra samfélagslegra verkefna.

Mér finnst hins vegar alveg koma til álita meðan við erum að komast út úr erfiðustu efnahagsþrengingunum að tímabundið renni þetta gjald beint í ríkissjóð. Mér finnst það bitamunur en ekki fjár, en að framtíðarmarkmiðið sé að þetta fari til sértækra samfélagslegra verkefna.

Að byggðatengja gjaldið — við höfum verið að reyna það mörg undanfarin ár í gegnum byggðakvótann að taka tillit til byggðasjónarmiða. Það hefur ekki tekist vel. Raunar hefur úthlutun byggðakvóta oft og tíðum valdið meiri deilum og úlfúð í sveitarfélögum en hún hefur leyst.

Hér finnst mér aðalatriðið að byggja ekki á þeirri rangstefnu að taka fyrst inn einhverjar tekjur og úthluta síðan byggðunum ölmusu og skammta þeim úr hnefa. Það er ekki byggðapólitík sem ég hallast að. Ég hallast miklu frekar að því að við breytum kerfinu, höfum það þannig að menn geti sótt sér aflaheimildir á jafnræðisgrundvelli og notið atvinnufrelsis ef við getum eflt strandveiðarnar og skapað skilyrði fyrir byggðir landsins til að bjarga sér sjálfar svo að þær þurfi ekki að sækja eyrnamerkta peninga í ríkissjóð eins og kerlingar með betlistaf.