140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[15:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er rætt um tillögu til þingsályktunar um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar, flutt af þingmönnum Samfylkingarinnar. Þeirra helsti sérfræðingur á sviði sjávarútvegsmála, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, er 1. flutningsmaður málsins.

Við lestur þessarar þingsályktunartillögu, virðulegi forseti, datt mér helst í hug að seint ætlar þeim að takast að toppa vitleysuna í sjálfum sér, samfylkingarmönnum, þegar rætt er um málefni sjávarútvegsins og fiskveiðistjórnarkerfið. Maður hugsar til þess til að byrja með, og kannski í samhengi við orð hv. þingmanns áðan að vel skal vanda það sem lengi á að standa, að nú hefur verið unnið að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu í þrjú ár af hálfu ríkisstjórnarinnar og það er hálfgerð sorgarsaga hvernig hefur tekist til. Maður veltir því fyrir sér af hverju eigi, eins og segir í þessari ályktun, „að fela ríkisstjórninni að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar þar sem bornar verði upp grundvallarspurningar, m.a. um hvort taka eigi upp nýtt fiskveiðistjórnarkerfi.“

Ríkisstjórnarflokkarnir eru að mér skilst að vinna að frumvarpi um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi. Eru þá þessir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna að leggja til að sú vinna verði stöðvuð og þjóðin verði spurð að því hvort hún vilji yfir höfuð fara í þá vinnu? Við hvað er átt? Setja á sérstakt stjórnarskrárákvæði um þjóðareign auðlindarinnar og taka á upp einhvers konar veiðigjald til að það verði einhver gjaldtaka af nýtingu auðlindarinnar sem renni í þjóðarbúið. Þetta eru grundvallaratriði sem sáttanefndin og allir fulltrúar sem í henni sátu, nema kannski fulltrúar Hreyfingarinnar, voru sammála um. Nákvæmlega þessi mikilvægu atriði voru grunnstefið í niðurstöðum sáttanefndarinnar sem skilaði af sér haustið 2010 og ákveðið tímamótasamkomulag náðist á milli þeirra pólitísku fulltrúa sem sátu þar og allra hagsmunaaðila í greininni, virðulegi forseti. Það er dálítið sérstakt vegna þess að ekki hefur tekist áður í þessum viðamikla málaflokki að ná öllum hagsmunaaðilum, smábátasjómönnum, sjómönnum, útgerðarmönnum stærri skipa saman og fá fram eina niðurstöðu.

Hér segir:

„Í sáttmála stjórnarflokkanna er kveðið á um mikilvægi þess að standa vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum. Þar er enn fremur kveðið á um breytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi að undangengnu samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Niðurstaða þess samráðs liggur fyrir í skýrslu starfshóps um endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun sem afhent var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 6. september 2010.“

Hvernig hefur síðan tekist til á þessu blessaða stjórnarheimili og hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar sem leggja fram þetta mál? Þeir stóðu að frumvarpi sem dreift var á þinginu á vordögum í fyrra og er eitthvert það slakasta útspil sem fram hefur komið um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi og málefni íslensks sjávarútvegs, einhverjar þær ömurlegustu breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram. Það var í raun staðfest með orðum hæstv. utanríkisráðherra, þingmanns Samfylkingarinnar, þar sem hann kallaði þetta bílslys. Ráðherrann líkti þessu við það sem það er og var, ekkert annað en stórslys.

Enda fór um það mál eins og það fór. Það var sent til föðurhúsanna. Það var alveg sama hvaða hagsmunaaðilar og sérfræðingar á þessu sviði fjölluðu um það, sama hvaða sveitarstjórnir fjölluðu um þetta, allir lýstu yfir megnustu andúð á þeim tillögum sem þar komu fram.

Því veltir maður fyrir sér þingsályktunartillögu eins og þessari: Hvaða innihald er í henni, hvað er að marka hana? Er þetta bara eitthvert vinsældarplagg eða vilja menn virkilega setja stopp núna og spyrja þjóðina um þessi mál? Ég er til í það. Vinnubrögðin eru svo klúðursleg fram að þessu að það er engu lagi líkt. Greinin er í algjöru uppnámi, fjárfestingar í algjöru frosti. Hér hefur ekkert gengið eftir sem er þjóðinni svo mikilvægt á vettvangi sjávarútvegs. Þrátt fyrir góða afkomu njótum við ekki þeirra fjárfestinga sem greinin gæti fært inn í íslenskt efnahagslíf. Það er sorglegt. Það er staðreynd að fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi námu 4,5–5 milljörðum á árunum 2010 og 2011, en eðlileg fjárfestingaþörf sjávarútvegsins hefði þurft að vera í kringum 20–25 milljarðar hvort árið.

Síðan segir í tillögunni:

„Markmið sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns. Mörkuð er sú stefna að veiðiheimildir skuli ákvarðast af nýtingarstefnu sem byggist á aflareglu hverju sinni.“

Er einhver ágreiningur um þetta? Var þetta innihald frumvarpsins og tillagnanna sem komu frá hv. þingmönnum sem eru á þessu máli og ríkisstjórninni á vordögum? Nei, það gekk í algjört berhögg við þessi markmið. Það var samdóma álit sérfræðinga sem fjölluðu um málið og allra sem fjölluðu um það. Bílslysið var staðreynd.

Mér sýnist að með þessari þingsályktunartillögu sé hugmyndin hjá flutningsmönnum sú að reyna að skapa einhverja sátt um fiskveiðistjórnarkerfið meðal þjóðarinnar. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að við sameinumst um að skapa sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein þannig að hún megi blómstra, þjóðinni til heilla. En það hefur ekki tekist hjá þessari ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkunum að koma með útspil í þá átt, og ég fullyrði að oft á tíðum, eins og í því frumvarpi sem lagt var fram á vordögum, birtist hreinlega þekkingarleysi þessa sama fólks á þessum málum. Ég fullyrði að ágreiningurinn í samfélaginu sé meðal annars til kominn vegna pólitískrar umræðu um málefni sjávarútvegsins sem oft ber keim af miklu þekkingarleysi.

Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir spurði áðan hvort við treystum ekki þjóðinni til að hafa þekkingu á þessum málum. Ég treysti þjóðinni fullkomlega til að fjalla af fullum heilindum um einhverjar tillögur, um einhverja niðurstöðu sem liggur fyrir. En að fara fram með svona óljósar spurningar, það nær auðvitað ekki nokkurri átt. Það er ekki þjóðinni bjóðandi að Alþingi Íslendinga, sem á að skapa reglur og umhverfi um atvinnulífið á Íslandi, ætli að leggja spurningar fyrir þjóðina þegar engan veginn er búið að móta framtíðarstefnuna sem leggja á til grundvallar þeim svörum sem þjóðin á að gefa. Hún kemur ekki fram hér. Það er ekki hægt að ætlast til þessa af þjóðinni, spyrja hana hvort taka eigi upp nýtt fiskveiðistjórnarkerfi og vinnan við það hefur verið á fullu í þrjú ár.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra sem nú situr sagði fyrir jól að ef hann fengi þennan málaflokk tæki það hann þrjár vikur að klára þessi mál, innan við þrjár vikur. Nú hefur hann haft málin í höndunum á þriðja mánuð og ekkert bólar á þessu enn. Af hverju? Er það vegna þess að það er svo mikil sátt og einurð í ríkisstjórnarflokkunum um hvert eigi að stefna? Nei, það er auðvitað vegna þess augljósa ágreinings sem er ekki bara á milli ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli heldur einnig innan þeirra.

Ég er viss um að ef þjóðin væri spurð að þessari grundvallarspurningu, hvort hún treysti ríkisstjórninni til að halda áfram utan um þennan málaflokk og stýra honum með eins ómögulegum hætti og hún hefur gert, mundi þjóðin vera fljót að senda þau skilaboð til ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) að láta þennan málaflokk í friði sem og (Forseti hringir.) atvinnumálin almennt.